Hamfarir í heilbrigðisþjónustu

Bóthildur Halldórsdóttir

Miklar hamfarir hafa sett svip sinn á árið sem senn er að líða, bæði náttúruhamfarir og hamfarir af mannavöldum. Og enn halda hamfarirnar áfram, þá á ég við síðustu hamfarasprengju sem fyrrverandi heilbrigðisráðherra kastaði yfir landsbyggðina um leið og hún skellti á eftir sér ráðuneytishurðinni. Útkoman er sviðin jörð um landið allt. 

Lengi vorum við búin að bíða hér á HSB eftir svörum og aðgerðum sem þessi ráðherra lofaði okkur, bæði þegar við fórum með mótmælalista sem nærri 700 íbúar héraðsins skrifuðu undir til hennar í nóvember síðastliðnum og aftur þegar hún mætti á mótmælafund hjá okkur í febrúar  ásamt þeim þingmönnum sem höfðu áhuga á að mæta.  Þetta er nefnilega ekki fyrsta sprengjan sem við hér á HSB fáum frá þessu ráðuneyti. 

Við erum búin að berjast fyrir leiðréttingu í tvö ár og  eftir síðustu heimsókn hennar sent bréf mánaðarlega.  En ekkert svar hefur komið sem segir okkur að við vorum ekki þess virði að hlustað væri á okkur.  Þannig er komið fram við fólkið á landsbyggðinni, við sem borgum okkar skatta og höfum þar að auki kosningarétt. Það virðist vera að aðeins sé munað eftir okkur rétt í kringum kosningar. 

Þegar svona atburðir gerast verður manni fyrst orðavant og veit ekki til þess að maður hafi brotið neitt af sér til að fá svona útreið nema að vera til og vilja fá það sem lög um heilbrigðismál kveða á um svo mannsæmandi sjúkraþjónusta sé á staðnum.  Næst verður maður reiður, og ég vona að reiðin haldi mér gangandi þangað til við fáum leiðréttingu. 

Líkt og hér á HSB, hefur verið krafa um niðurskurð og sparnað, um allt land eru læknar og hjúkrunarfólk að hætta stöfum og flytja úr landi, hinum á að segja upp og eftir sitja sjúkir, öryrkjar og láglauna fjölskyldur sem eru föst og komast hvergi og engin til staðar lengur til að hugsa um þau þegar á þarf að halda.  Hver man ekki eftir kjörorðinu; Búum öldruðum áhyggjulaust ævikvöld.   Kannski á bara  að fjölga prestum í staðinn?  Og það þrátt fyrir flótta landsmanna úr þjóðkirkjunni.

Það má ekki gleyma því að þegar hamfarir eins og þjóðarkreppan mikla sem skall á okkur á haustmánuðum 2008, gengur yfir þá erum við hvað viðkvæmust fyrir, ekki síst þegar ríkisstjórnin virðist blind á báðum og heyrnarskert í þokkabót og virðist enga grein gera sér fyrir ástandinu í landinu.  Við verðum að tryggja það að hér sé heilbrigðisþjónusta til staðar til að taka á þeim vandamálum sem fylgir og hægt verði að veita þá hjálp sem þörf er á, nú og um alla framtíð.

Við verðum að láta rödd okkar heyrast ef við viljum eiga einhverja von um að hér verði boðið upp á þá heilbrigðisþjónustu sem við eigum rétt á.

Bóthildur Halldórsdóttir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir