Gefum pólitíkinni frí | Leiðari 29. tölublaðs Feykis

Celine Dion slær í gegn enn á ný. MYND AF NETINU
Celine Dion slær í gegn enn á ný. MYND AF NETINU

Þá eru Olympíuleikarnir í París komnir í gang og á meðan fellur hanaslagurinn um bandaríska forsetaeimbættið örlítið í skuggann. Sem er alveg ágætt því það getur vart talist mannbætandi að fylgjast með töktum Trumps sem seint getur talist okkur Íslendingum að skapi.

Einhverjum tókst loks að benda Biden, forseta Bandaríkjanna, á að hann hefði ekki lengur það sem þarf til að sinna því sem má segja að sé valdamesta embætti heims. Í raun ekki lengur í toppformi eða landsliðsflokki. Það verður væntanlega varaforsetinn Kamala Harris sem fer fram sem fulltrúi Demókrata en þó það væri örugglega ekki að valda okkur Íslendingum flestum hugarangri hvorn frambjóðandann við kysum þá er það kannski ekki eins borðleggjandi fyrir Kanann. Þegar þetta er skrifað er talað um að 49% ætli að kjósa Trump en 47% Harris. Það þýðir auðvitað ekki að 49% kjósenda séu asnar heldur að um helmingur Bandaríkjamanna sé óánægður með þá sem stjórna og það má ekki gera lítið úr því.

Það er sömuleiðis barist á Ólympíuleikunum. Þvílíkt snilldar sjónarspil sem leikarnir eru; holskefla af drama, gleði, tárum og fegurð sem margir frábærustu iþróttamenn heims bera á borð fyrir okkur. Því miður eigum við Íslendingar ekki marga keppendur á leikunum að þessu sinni og vonir um verðlaun eru langsóttar. En á Ólympíuleikum er aðalatriðið að vera með – og þannig er það einmitt.

Ólympíuleikarnir skilja eftir margar fallegar og bjartar minningar sem við áhorfendur tengjum við um aldur og ævi. Þó hefur pólitíkin lengi litað sögu þeirra dekkri litum sem því miður lifa einnig í minningunni.

Fyrsti og kannski mesti sigurvegari Ólympíuleikanna í París, að fyrstu þremur dögunum liðnum, var að öðrum ólöstuðum söngkonan Celine Dion sem heillaði heimsbyggðina með hreint mögnuði flutningi á óði til ástarinnar. Hvernig væri að gefa pólitíkinni örlítið frí og meðtaka fegurð Ólympíuleikanna og mannlífsins?

Óli Arnar Brynjarsson,
ritstjóri

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir