Frjálslyndir fara frjálslega með
Í ljósi þess sem Sigurjón Þórðarson sveitarstjórnarfulltrúi Frjálslyndra og óháðra segir í grein sinni á Feykir.is fann ég mig knúinn til að rita hér nokkur orð benda á að upplifun okkar af sama sveitarstjórnarfundinum virðist vera mjög ólík þar sem m.a. var rædd tillaga frá Sigurjóni um málefni Skagafjarðaveitna.
Í greininni segir Sigurjón um tillögu sína:
„Það er skemmst frá því að segja að tillagan var samþykkt samhljóða með þeirri breytingu að úttektinni verður einni ætlað að ná til kaldavatnslinda og mögulegra virkjunarstaða.“
Málið er þannig vaxið að tillaga Sigurjóns var ekki samþykkt, og reyndar var aldrei kosið um þá tillögu heldur breytingartillögu frá undirrituðum. Sú tillaga var samþykkt með öllum atkvæðum og því allir sveitarstjórnarfulltrúar sammála um þá tillögu, Sigurjón þar á meðal. Gekk sú tillaga mun lengra en sú tillaga sem Sigurjóns lagði fram og tekur á fleiri þáttum.
Því verður að teljast mjög undarlegt hjá Sigurjóni að birta tillögu sína ásamt greinargerð í grein sinni og fullyrða að hún hafi verið samþykkt samhljóða með smávægilegum breytingum þegar raunin er sú að aldrei var kosið um þá tillögu á sveitarstjórnarfundinum. Slíkur málfluttningur er afar hæpinn og ekki til eftirbreytni.
Tillagan ásamt greinargerð sem samþykkt var á fundinum er svo hljóðandi:
„Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar beinir því til veitunefndar að láta framkvæma lögfræðilega úttekt á stöðu sveitarfélagsins er kemur að hita- og kaldavatnsréttindum sveitarfélagsins, bæði á þeim vatnslindum sem nú eru í notkun sem og þeim lindum sem mögulegt er að farið verið í á næstu árum í samræmi við þá vinnu sem nú er í gangi hjá veitunefnd Sveitarfélagsins.
Gert er ráð fyrir því að sá kostnaður sem af verkinu hlýst verði greiddur af eigin fé Sveitarfélagsins og að um það verði gerður sérstakur viðauki í fjárhagsáætlun ársins 2014.
Greinargerð
Mikilvægt er fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð að lögformleg staða sveitarfélagsins sé skýr er varðar hita- og kaldavatnsréttindi sveitarfélagsins. Eðlilegt verður að teljast að slík vinna fari fram hjá veitunefnd og hjá veitu- og framkvæmdarsviði Sveitarfélagsins. Veitunefnd sveitarfélagsins er að vinna að því að teikna upp þá framtíðarmöguleika veittnana með það að markmiði að stækka þjónustusvæði og fjölga notendum sem aðgang hafa að heitu vatni í Skagafirði. Því er eðlilegt að litið sé til þess, jafnframt því að skoða þau vatnasvæði sem nú þegar eru í notkun í því lögfræðiáliti sem lagt er til að farið verði í. Ekki er síður mikilvægt að skoðða stöðu á þeim svæðum er sjá íbúum og fyrirtækjum fyrir köldu vatni.“
Með tillögunum er vissulega samhljómur en af og frá að sveitarstjórn hafi verið að samþykkja tillögu Sigurjóns, um hana var ekki kosið. Það er mikilvægt að sveitarstjórnarfulltrúar fari rétt með það sem fram fer á sveitarstjórnarfundum í riti sem og í ræðu og miðli réttum upplýsingum út í samfélagið.
Stefán Vagn Stefánsson
Formaður byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.