Fékk nóg af stormstatusum og fór á litafyllerí!
Hugmyndin að BaliButik fæddist þegar við fjölskyldan dvöldum allan janúar á Balí með dóttur okkar Regínu. Þar tók fæðingarorlofið á sig ævintýralega mynd. Við heilluðumst ekki aðeins af náttúrufegurðinni, matnum, brosmildu fólkinu og litríkum fatnaðnum, heldur líka hamingjunni sem liggur í loftinu.
Balí er töfrandi staður þar sem hugmyndirnar hreinlega streyma fram og því fór svo að eitt kvöldið þegar við biðum eftir að fá kvöldmatinn afgreiddan hringdi ég í yfirmann minn og sagði upp vinnunni. Ég var í góðri vinnu en eitthvað sagði mér að taka stökkið og elta drauma mína. Frelsistilfinningin sem fylgdi var ólýsanleg þó ég væri að stökkva út í óöryggið. Atvinnulaus með lítið barn. Svoleiðis gerir maður ekki! Eða hvað? Einn af þessum draumum rætist hér - að selja litríkan handgerðan fatnað og gjafavöru frá Balí. Með von um að örlítil orka og ást fylgi flíkunum til ykkar.
Ein af fyrstu hugmyndunum á listanum var pop-up verslun með handsaumaðan fatnað og skart frá Balí. Pop-up verslunin tókst gífurlega vel og í kjölfarið hrúguðust inn tölvupóstar frá konum sem höfðu ekki komist í verslunina þá þrjá daga sem hún var opin en vildu panta fatnað. Margar þeirra bjuggu utan höfuðborgarsvæðisins og áttu ekki erindi í bæinn þessa helgi. Því var næsta skref að opna vefverslun. Það gladdi mig að sjá hversu litaglaðar íslenskar konur eru, en flestir virðast vera komnir með nóg af flíspeysufréttum og stormstatusum. Sjálf er ég ansi litaglöð og trúi á að bjartur fatnaður boði betri tíð og breiðari bros. Stefnan er að byrja með nokkra vöruflokka en bæta jafnt og þétt við. Við erum í viðræðum við nokkra hönnuði með von um að bæta við úrvalið á næstu vikum.
Bleika þruman
Balíbúar eru flestir hindúatrúar og trúa þar með á karma, það er að segja að þér séu endurlaunuð góðverk þín og gjörðir í næsta lífi. Þetta litar allt samfélagið og við fundum fyrir mikilli velvild. Balíbúar eru alla jafna heiðarlegir og kurteisir. Það er ekki óalgengt að ef þú borgar of mikið eða gleymir einhverju að þú sért eltur niður hálfa götuna svo hægt sé að skila þér því sem eftir var. Við dvöldum í listamannabænum Ubud sem er að okkar mati dásamlegur. Mun minni túristafílingur og læti en víða annars staðar á eyjunni. Þar er mikill fókus á jóga en ein vinsælasta jógastöð á Balí, Yogabarn, er þar. Göturnar eru ekki þær þægilegustu til að ganga um með kerru en við létum okkur hafa það enda Balíbúar rólyndisfólk og allir til í að aðstoða okkur með kerruna upp og niður tröppur. Einn daginn í miðbæjarröltinu sprakk svo á bleiku þrumunni. Ég ætlaði að bugast og blóta en hætti strax við. Balí er of glaðlegur og góður staður til að velta sér upp úr sprungnu dekki. Ég sendi Kalla og Regínu á næsta kaffihús og kippti hjólunum með mér yfir götuna þar sem hópur leigubílstjóra sat. Ég spurði hvort einhver gæti lagað þetta fyrir mig. Ég myndi sitja á kaffihúsinu á móti og bíða. Einn mannanna var snöggur til og settu kerruna í bílinn og kvaðst myndu redda þessu. Ég kom til baka og sagði Kalla að við fengjum kannski rándýru kerruna til baka. Það kæmi í ljós.
40 mínútum seinna kom leigubílstjórinn skælbrosandi til baka með dekkið svo gott sem nýtt. Fyrir ómakið vildi hann litlar 500 krónur. Á Balí lærir maður að treysta fólki og reikna með góðmennsku fyrst og fremst. Balí fyllir mann þannig ótrúlegri orku og krafti.
Terima Kasih (takk fyrir)
Tobba Marinós
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.