Eru lág laun í Skagafirði ein orsök fólksfækkunar?
Við umræðu um atvinnuástand og laun hefur Norðurland vestra margoft verið skilgreint með réttu sem láglaunasvæði og kemur það fram í samantektum og skýrslum sem opinberir aðilar hafa tekið saman. Tekjuþróun á Norðurlandi vestra hefur verið undir landsmeðaltali undanfarin ár og er ekkert sem bendir til annars en að svo verði áfram.
Getur verið að lág laun séu orsakaþáttur í fólksfækkun í Skagafirði ? Á sú spurning ekki átt rétt á sér nú þegar verið er að rýna í kjarasamninga og semja um kaup og kjör og tölur Hagstofu Íslands sýna fólksfækkun í Skagafirði.
Þessar vangaveltur urðu til þess að ég lagði fram eftirfarandi tillögu ásamt fulltrúa Frjálslyndra og óháðra á sveitarstjórnarfundi Sveitarfélagsins Skagafjarðar sem haldinn var 22.janúar.
„Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykkir að gera könnun á launakjörum Skagfirðinga samanborið við launakjör í sambærilegum sveitarfélögum og höfuðborgarsvæðinu“
Í stuttu máli sagt þá var tillagan felld með sjö atkvæðum gegn tveimur.
Formaður byggðaráðs lagði fram breytingartillögu þess efnis að sveitarstjóra væri falið að kanna hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga hvort hægt væri að gera slíka könnun. Sú tillaga fékk samþykki.
Ég vænti þess að niðurstaðan verði sú að þessi könnun verði unnin og vil meina að hún sé vel framkvæmanleg enda er til sambærileg könnun frá 2004 sem unnin var af Atvinnuþróunarfélagi Norðurlands vestra fyrir atvinnu og ferðamálanefnd Sveitafélagsins Skagafjarðar.
Í þeirri könnun kom m.a. fram að meðallaun í Skagafirði væru mjög lág í samanburði við landsmeðaltal og þar vógu þyngst lág laun í sveitum héraðsins. Mikilvægt er að fá samanburð á launaþróun árið 2014 í samanburði við árið 2004.
Hefur launaþróun breyst til batnaðar og hagsældar fyrir íbúa o samfélag s.l. 10 ár eða erum við að hjakka í sama farinu ?
Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, sveitarstjórnarfulltrúi Samfylkingarinnar í Skagafirði.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.