Er sjálfsagt að sjúkraliðar hlaupi hraðar?

Sigurlaug Dóra Ingimundardóttir.
Sigurlaug Dóra Ingimundardóttir.

Síðustu ár hefur álag á sjúkraliða aukist mjög og valdið m.a stoðkerfisvandamálum og auknum veikindum. Vaktir eru undirmannaðar, öll rúm full og því alls ekki samræmi á milli mönnunar og hjúkrunarþyngdar. Það þykir því miður sjálfsagt að sjúkraliðar hlaupi hraðar, en er það sjálfsagt?

Sjúkraliðar hafa barist fyrir því að laun verði í samræmi við menntun, ábyrgð og álag með litlum árangri. Stéttin er gríðarlega mikilvægur hlekkur í starfsemi heilbrigðisstofnana og starfið er þrátt fyrir allt ótrúlega gefandi og skemmtilegt.

Ráðamenn þjóðarinnar átta sig ekki á mikilvægi stéttarinnar sem vinnur með fárveikt fólk og ber ábyrgð á velferð þeirra. Sjúkraliðar eins og aðrir þurfa laun sem duga til að lifa mannsæmandi lífi. Ráðamenn þjóðarinnar geta þurft eins og aðrir á þjónustu okkar að halda og eiga að hafa það í huga að ef slík stétt á að vera til þá er ekki nóg að hampa okkur á hátíðar- og tyllidögum og gleyma okkur svo eins og innantómum kosningaloforðum.

Það virðist vera til nóg af peningum í landinu sem sést best á því að ríkisstjórnin hefur afsalað þjóðinni milljörðum í niðurfellingum á sköttum af vildarvinum sínum og eyða hundruðum milljóna í bíla og aðstoðarmenn ráðherra.

Á sama tíma eru sjúkraliðar hýrudregnir, jafnvel fyrir vaktir sem þeir vinna milli verkfalla vegna rangtúlkunar fjármálaráðuneytisins á félagsdómi.

Það er neyðarbrauð fyrir sjúkraliða að vera í verkfalli því við vitum það best hve illa það bitnar á þeim sem síst eiga það skilið. Við erum fullsödd á hvernig traðkað hefur verið á okkur og berjumst eins og við þurfum og virðingarleysinu í okkar garð verður ekki gleymt í næstu kosningum.

Fyrir hönd Sjúkraliðadeildar Norðurlandsdeildar – vestra

 Sigurlaug Dóra Ingimundardóttir varaformaður

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir