Fegursta útsýni veraldar
Heimurinn er ótrúlega stór, svo merkilega stór. Bara landið okkar er svo hrikalega stórt að engum manni myndi nokkurn tíma endast ævin til að kynnast öllum þess leyndardómum. Hvað þá plánetan öll, svo sneisafull af undrum, hvort sem þau eru náttúruleg, manngerð eða bara mannleg. Það er svo endalaust margt að sjá og upplifa í þessum heimi að stundum svimar mig af tilhugsuninni, eins og þegar ég geng inn í bókabúð eða tónlistarbúð og horfi á allt úrvalið af mannsins sköpun, öllum þessum sögum, öllum þessum söngvum. Þá fyllist ég stundum svo gríðarlegri lotningu og vanmáttarkennd að ég hef hreinlega hrökklast öfugur út.
Á ferli mínum sem farandsöngvari hef ég ferðast víða og séð margt. Fjölmargar strandir, fjöll, ár og skógar hafa skreytt farir mínar og verið mér mikið augnayndi, sem og mannvirki ýmiss konar. Stundum er það stærðin og mikilfengleikinn sem hristir hjarta manns, en alveg eins kemur fyrir að það er einmitt smæðin, kyrrðin og hið lágstemmda sem heillar. Um daginn settist ég til dæmis inn í 200 ára gamalt bókasafn í Connecticut fylki í Bandaríkjunum og leið eins og ég sæti í einhvers konar ævintýrabók. Kyrrðin fyllti hjarta mitt og gamalt húsið umfaðmaði mig með öllu sínu aldna timbri og leðurklæddu skruddum.
En fegursta sýn lífs míns býr þó ævinlega í Sléttuhlíðinni, nánar tiltekið uppi í Skálinni í Skálárhnjúki. Þar hefur skaparinn svo fagurlega skreytt skálina með kransi birkitrjáa og fyllt hana aðalbláberjalyngi og blágresi. Anganin er himnesk. Undursamleg eyjasýnin blasir svo við til vesturs, handan friðsællar sveitar Sléttuhlíðar. Málmey og Drangey virðast sitja hlið við hlið, svo ótrúlega settlegar, eins og tvær ljúfar og blíðar ömmur sem gæta fjarðarins. Svo kíkir Þórðarhöfðinn fyrir hornið, aðeins sunnar, svona rétt til að athuga hvort allt fari ekki vel fram. Og handan Hrolleifsdalsins situr hnjúkurinn eins og Egypskur Sfinx og horfir makindalega en vakur yfir fjörðinn.
Eins glæsileg og óviðjafnanleg og þessi eyjasýn er, þrungin lyng- og birkiangan í sumarblíðu Skagafjarðar, er þó ein vídd sem bætist við og færir hana yfir á næsta svið fegurðar. Það er vídd tímans. Þegar klukkan slær sex á síðsumarkvöldi, komið fram í ágúst. Þá lúrir sólin bak við eyjarnar og kveikir í firðinum með óviðjafnanlegu sjónarspili. Málmey og Drangey umlykjast eldhafi og allir heimsins litir springa út við fuglasöng og nið árinnar í fjarska.
Og það mætti halda að skaparinn hafi fyllst einhverri ótrúlegri glettni og rómantískri katínu, þegar hann bætti um betur og setti í skálina lítinn grasblett, rétt nógu stóran fyrir tvær manneskjur til að eiga þarna óskastund.
Skálá er landnámsjörð. Þennan blett hafa kynslóð eftir kynslóð ungra elskenda fundið eftir stutta fjallgöngu, þeirra á meðal foreldrar mínir og svo seinna ég og mín heittelskaða.
Er ekki lífið dásamlegt?
Ég skora á sveitunga minn og nágranna, Stefán Gestsson yngri frá Arnarstöðum að segja sína sögu.
Svavar Knútur er söngvaskáld, ættaður úr Fljótunum.
Áskorendapistill í 42. tbl. Feykis
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.