Ekkert réttlætir slíka aðför að búsetu og lífskjörum í Skagafirði

 
 

Við blasir að óbreyttu ógnar niðurskurður á fjárframlögum til opinberra stofnanna og grunnþjónustu í Skagafirði og Húnavatnssýslum sem boðaður er í fjárlagafrumvarpi og þá sérstaklega gagnvart Heilbrigðisstofnunni á Sauðárkróki. Því verður ekki unað að vegið verði með svo afdrifaríkum hætti að grunnstoðum búsetu á landsbyggðinni sem tillögurnar bera með sér. Ef þær ná fram að ganga munu þær hafa gríðarleg áhrif á búsetuskilyrði í Skagafirði, öllu NV og víðar á landsbyggðinni.  Skelfilegastar eru þær tillögur er snúa að niðurskurði á heilbrigðisþjónustu.

Heilbrigðisstofnunin yrði ekki til áfram í núverandi mynd

Heilbrigðisstofnunin á Sauðárkróki  var látinn þola yfir 11% niðurskurð á yfirstandandi ári á meðan almennur niðurskurður var  um 5% hjá heilbrigðisstofnunum landsins. Þá var því heitið að tekið yrði tillit til þess við næstu fjárlagagerð. Þetta hefur nú verið svikið. Hugmyndir um allt að 30% niðurskurð til viðbótar nú yrðu reiðarslag fyrir Heilbrigðisstofnunina og skagfirskt samfélag og hefði í för með sér að stofnunin gæti ekki haldið velli í núverandi mynd ásamt því að stór hluti af þeirri þjónustu sem hún hefur veitt yrði aflagður. Fjöldi starfa er einnig í húfi og reiðarslag ef svæðið yrði fyrir svo mikilli blóðtöku.

Grundvallarbreytingar á skipulagi og framboði heilbrigðisþjónustu án samráðs við íbúa

Jafnframt fela tillögurnar í sér grundvallarbreytingar á skipulagi þeirrar heilbrigðisþjónustu sem byggð hefur verið upp í landinu á undanförnum áratugum hvað varðar aðgengi að heilbrigðis- og sjúkraþjónustu í heilu landshlutunum. Svo afdrifaríkar ákvarðanir, á þessu sviði sem öðrum, á ekki að vera hægt að taka nema að undangengu samráði við þá sem starfa á vetvangi sveitarstjórna og íbúa í viðkomandi byggðarlögum þar sem tekið væri ríkt tillit til sjónarmiða heimafólks.

Nýjum Landspítala ætlað að taka við heilbrigðisstarfsfólki og sjúklingum af landsbyggðinni sem þar verður úthýst?

Ekkert réttlætir slíka aðför að búsetu og lífskjörum hér á þessu svæði eins og fjárlagatillögurnar bera með sér. Á sama tíma virðist það vera forgangsverkefni stjórnvalda að reisa nýjan landspítala í Reykjavík fyrir marga miljarða, en þar hastar m.a á að skapa meira pláss til að taka við þeirri starfsemi sem til stendur að leggja niður á landsbyggðinni.

Ekki liggur annað fyrir en að taka höndum saman og berjast fyrir því að alþingi og stjórnvöld leiðrétti þessar tillögur áður en svo þungbær skref verða stiginn gagnvart heilu samfélögunum á landsbyggðinni.

Bjarni Jónsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir