Draumaleikskólinn - Opið bréf til sveitarstjórnarmanna í Skagafirði 

Leikskólinn Birkilundur í Varmahlíð er með skjólsælt leiksvæði þar sem hægt er að fara út nánast hvern einasta dag allan ársins hring. Það er frábært að hafa slíkar aðstæður en því miður er leikskólinn sjálfur of lítill, bæði fyrir börn og starfsfólk.

Það væri frábært að fá leikskóla þar sem eru hæfilega mörg rými á hverri deild til þess að hægt sé að skipta börnunum niður og fá betri vinnufrið og minni eril.

Það væri frábært að fá leikskóla þar sem fataherbergi er í góðum tengslum við deild og salerni aðgengilegt af útisvæði.

Það væri frábært að fá leikskóla þar sem gott aðgengi er á milli deilda til þess að auðvelda samstarf og samvinnu.

Það væri frábært að fá leikskóla með hita í gólfum þannig að ekki þurfi að hafa áhyggjur af því að börnin brenni sig á ofnum eða slasi sig á þeim með öðrum hætti og notalegt sé að sitja á gólfinu í leik og starfi.

Það væri frábært að fá leikskóla þar sem kennarar geta unnið sína undirbúningsvinnu í ró og næði.

Það væri frábært að fá leikskóla þar sem hver starfsmaður hefur læsta hirslu til að geyma sína persónulegu muni og pláss er fyrir utanyfirföt og skó.

Það væri frábært að fá leikskóla með kaffistofu þar sem hægt er að láta fara vel um sig í rólegheitum þegar færi gefst í amstri dagsins.

Það væri frábært að fá leikskóla þar sem hægt er að bjóða fólki upp á viðtöl jafnvel þó einhver starfsmaður sé í kaffipásu eða undirbúningsvinnu.

Það væri frábært að fá leikskóla þar sem hægt er að skipuleggja vinnu starfsmanna út frá tíma en ekki rými, og hafa þannig möguleika á að nýta hverja stund vel. Þessi leikskóli er innan seilingar. Það þarf bara að taka ákvörðun, ljúka hönnunarvinnu og öðrum undirbúningi og hefja síðan framkvæmdir.

Á árunum 2006-2008 voru skoðaðar nokkrar mismunandi hugmyndir af viðbyggingu við Birkilund en þær voru slegnar út af borðinu á þeim forsendum að það væri ekki pláss til að byggja við. Fyrir 4 árum síðan kom fram hugmynd um að flytja leikskólann inn í húsnæði grunnskólans. Þegar farið var að vinna þessa hugmynd komu fram ýmsir vankantar bæði hvað varðaði leikskólann, grunnskólann og tónlistarskólann.

Ákveðið var að endurvinna hugmyndina um flutning leikskólans í húsnæði Varmahlíðarskóla en jafnframt að leggja mat á kostnað við viðbyggingu við Birkilund á grundvelli þess að mögulega væri hægt að færa lóðarmörk. Þessi vinna hefur farið fram og kostirnir verið ræddir í samstarfsnefnd Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Ef flytja á leikskólann í Varmahlíðarskóla þarf að gera upp allt húsið og ljúka þeim framkvæmdum á örfáum árum. Það er kostnaðarsöm aðgerð sem Akrahreppur er ekki tilbúinn að taka þátt í.

Ef ekki verður tekin ákvörðun fljótlega um varanlegar úrbætur í húsnæðismálum leikskólans mun það leiða til þess að það verður að fækka börnum í leikskólanum svo hægt sé að bæta aðstöðu fyrir starfsfólk í núverandi húsnæði. Það er algjörlega í mótsögn við þörfina á svæðinu og væri mjög slæmt fyrir samfélagið.

Sveitin hefur verið að blómstra, ungt fólk að flytja á svæðið, ýmist til að taka við búrekstri eða til að sinna öðrum störfum. Forsenda fyrir því að unga fólkið verði hér áfram er að það geti fengið örugga vistun fyrir börn sín. Nú er tækifærið fyrir ykkur sveitarstjórnarmenn í Sveitarfélaginu Skagafirði að rifja upp það sem rætt var fyrir kosningar þegar allir voru sammála um að það þyrfti að bæta úr húsnæðisvanda leikskólans og finna lausn sem íbúar væru sáttir við.

Starfsfólk Birkilundar hefur sýnt einstaka þolinmæði og útsjónarsemi til að láta starfið ganga snuðrulaust fyrir sig. Það hefur reynt á börnin í erli dagsins þegar ekki er mikið svigrúm fyrir hvern og einn. Foreldrar hafa verið þolinmóðir og tillitsamir þó aðstaðan og plássleysið komi oft illa við þá. Allir sem koma reglulega í leikskólann vita að þetta er ekki viðunandi. Það á ekki að bjóða fólki upp á þessa starfsaðstöðu, hvorki fullorðnum né börnum. Það þarf að bæta úr og það þarf að gerast fljótt.

Fyrir hönd starfsfólks, foreldraráðs og stjórnar foreldrafélags
Steinunn Arnljótsdóttir, leikskólastjóri í Birkilundi

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir