Byggðastefna í skötulíki
Stefnumótandi byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar var lögð fram á Alþingi í vikunni. Þar eru mörg góð markmið kynnt til sögunnar og sambærileg stefnuplögg hafa verið lögð fram á þingi í gegnum tíðina.
Ef öll þau góðu áform sem kynnt hafa verið af hálfu stjórnvalda í gegnum tíðina hefðu orðið að veruleika hefðum við sem höfum eytt ævi okkar úti á landsbyggðinni ekki þurft að hafa miklar áhyggjur af búsetuþróun. Því vissulega hafa komið þar fram mörg góð og göfug markmið um jöfnun búsetuskilyrða og ýmiss konar átaksverkefni til að svo megi verða, en því miður hefur það nú ekki gengið eftir nema að litlu leyti.
Ég hef sagt það áður að ég tel þá byggðastefnu sem rekin hefur verið segjum síðustu 20 ár vera í algjöru skötulíki. Hún hefur verið mjög ómarkviss og fyrst og fremst miðast við að plástra þegar vandamálin eru komin upp og erfiðleikar steðja að. Oftar en ekki þegar allt er komið í óefni þá bregðast menn við, stundum í fljótræði og klastra upp á hlutina en ekki að menn séu að vinna markvisst eftir áætlunum til að koma í veg fyrir að hlutirnir fari á verri veg.
Ég held að mjög margir geti tekið undir þessi orð mín sem búið hafa úti á landsbyggðinni og sérstaklega á þeim svæðum sem hafa átt undir högg að sækja eins og er því miður á öllum landshornum. Vestfjörðum, Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra, Austfjörðunum og Suðurlandi og víða á Vesturlandi líka á þessum stöðum er fólk kannski hætt að trúa fögrum orðum og vill sjá að verkin tali og að lagðir séu fjármunir í hlutina að fjármagn fylgi mörkuðum stefnumótandi byggðaáætlunum.
Ríkisstjórnin byrjar ekki vel og er ekki landsbyggðarvæn í verkum sínum í nýsamþykktum fjárlögum . Mikið gekk á í fjárlagavinnunni að ná einhverju til baka þar sem skera átti niður í góðum verkefnum á landsbyggðinni sem hafin voru í tíð fyrri ríkisstjórnar. Ég nefni Sóknaráætlun þar var skorið niður um 300 milljónir en hún er í raun byggðastefnu í verki.
Skorið var niður í jöfnun húshitunarkostnaðar, menningarsamningar voru skornir niður, uppbygging á veikum svæðum eins og í Skaftárhreppi þar var skorið niður. Verkefninu „Brothættar byggðir“ átti að skera niður okkur tókst að ná því fjármagni aftur til baka 50 milljónum og þannig mætti áfram telja. Markaðar tekjur til vegagerðar voru skornar niður ,stuðningur við flug á ríkisstyrktum leiðum skorinn niður.
Framkvæmdasjóður ferðamannastaða sem vissulega hefur verið að skila miklu út í dreifðar byggðir landsins þar var skorið niður. Okkur tókst að koma í veg fyrir mikinn niðurskurð til uppbyggingar háhraðatenginga út um landsbyggðina . Einnig má nefna að skera átti niður fjármagn til nýrra framhaldskóladeilda á landsbyggðinni „dreifinám“en það tókst að stoppa það af sem betur fer og áfram mætti nefna fjölda dæma.
Allt voru þetta verkefni sem hægt var að halda áfram með góð verk frá tíð fyrri ríkisstjórnar. Og þó að ástandið hafi nú verið eins og það var eftir Hrunið markaði síðasta ríkisstjórn þá vegferð að hún ætlaði að vinna að því að leggja landsbyggðinni lið og fara í framkvæmdir eftir getu og í áföngum til að byggja upp víða á landsbyggðinni í verki eins og t.d. ný hjúkrunarrými sýna og vann þar með heimamönnum eins og að Sóknaráætlun og fleiri góðum verkum.
Mikil niðurskurður var í fjárlögum til rannsóknar og nýsköpunarsjóða sem skilað hafa sér til uppbyggingar fyrirtækja vítt og breytt um landið. Okkur tókst þó að koma í veg fyrir að skorið yrði niður í endurgreiðslu skatta til nýsköpunarfyrirtækja sem skilað hefur góðum árangri.
Ég vil bara nefna þetta vegna þess að hve vel sem fögur fyrirheit líta út á blaði í þingsályktunartillögu þá eru það verkin sem tala þegar upp er staðið. Menn tala oft digurbarkalega á hátíðarstundum um mikilvægi landsbyggðarinnar, en þegar skipta á kökunni og fjármagninu hefur það ekki reynst sérstaklega auðvelt að draga fé til landsbyggðarinnar þó hún sé að skili ríkissjóði miklum tekjum. Þar eru útflutningsgreinar okkar, landbúnaðurinn og í gegnum alla matvælaframleiðslu úti um allt land og ýmiss konar starfsemi í ferðaþjónustu sem hefur verið að byggjast ört upp á landsbyggðinni undanfarin ár.
Mér finnst því ekki að við landsbyggðarmenn þurfum að ganga fram sem ölmusuþegar og þiggja bætur hér og þar. Það á bara að gefa rétt í þessu þjóðfélagi og þeir fjármunir sem skapast úti á landi eiga að skila sér með réttmætum hætti aftur til baka. Ef það mundi gerast þannig væri landsbyggðin bara ágætlega stödd og ég held að það fólk sem býr á landsbyggðinni geti alveg tekið undir það.
Ég held að við verðum að fara að bretta upp ermarnar. Ef við meinum eitthvað með því að við viljum vinna að stefnumótandi byggðaáætlun þá verður það að vera miklu markmiðsmiðaðri áætlun og að fjármagn fylgi. Því annars eru þetta bara fögur fyrirheit sem allir eru hættir að hafa trú á að skili sér til þeirra svæða sem í hlut eiga. Þannig viljum við ekki sjá hlutina gerast við þurfum öfluga
„ Sóknaráætlun“ í samvinnu við fólkið á landsbyggðinni.
Við höfum tækifæri og tækifærin liggja líka út um land og þess vegna er það hagur allra landsmanna að unnið sé að uppbyggingu og byggðaáætlun um landið sem skilar sér í verki.
Lilja Rafney Magnúsdóttir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.