Byggðaröskun er ekki náttúrulögmál
Mikið skortir á framtíðarsýn í byggðamálum hjá núverandi stjórnvöldum. Átakanlegustu dæmin um það er annars vegar niðurskurður til Sóknaráætlana, hins vegar sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að afnema fjárfestingaáætlun fyrri ríkisstjórnar sem gerði ráð fyrir stórátaki í innviðauppbyggingu, meðal annars öflugu samgönguátaki, á grundvelli fjármögnunar sem lá fyrir þá þegar. Stefnuleysið birtist ekki síst í handahófskenndum aðgerðum og aðgerðaleysi. Engin samgönguáætlun er til dæmis í gildi og hefur ekki verið síðan 2014.
Verstu óvinir byggðanna eru fólksfækkun, lágt menntunarstig, hækkandi meðalaldur, erfiðar samgöngur og einhæft atvinnulíf þar sem störfum hefur farið fækkandi. Byggðarlög sem kljást við þennan vanda eiga engu að síður viðreisnar von og gætu fullvel bjargað sér ef þau nytu þeirrar innviðauppbyggingar sem er nauðsynleg til atvinnu- og búsetuþróunar. Þá er ég að tala um góðar samgöngur, örugga raforku og traust fjarskipti á borð við símasamband og internetaðgengi – allt þættir sem gera einstök svæði samkeppnishæfari en ella væri. Því miður eru gæðum verulega misskipt milli landshluta hvað þetta varðar, og á meðan má spyrja hvort við við séum í raun ein þjóð í einu landi.
Grunnstoðirnar þrjár
Öflugar samgöngur, góð fjarskipti sem tryggja greiðar internettengingar og raforkuöryggi eru grundvöllur þess að atvinnulíf frá þrifist og byggð þróast í landinu. Standi þessar þrjár meginstoðir sterkar í hverjum landshluta eru þær trygging fyrir vænlegum búsetuskilyrðum. Á öðrum áratug 21. aldar hlýtur það að teljast sjálfsagður hlutur hvar á landinu sem er að hafa þessa megininnviði í lagi, ekki síst þar sem opinber stefna miðar að aukinni samþættingu þjónustu og sameiningu stofnana og sveitarfélaga.
Auk traustra innviða þurfa byggðirnar að fá að njóta auðlinda sinna, landgæða og mannauðs. Þannig byggjast upp vænleg búsetu- og atvinnuskilyrði á sjálfbærum forsendum. Í því ljósi er mikilvægt að sveitarfélögin eigi þess kost að njóta tekna af vaxandi ferðamannastraumi víða um land að þau eigi þess kost að byggja upp álitleg ferðamannasvæði innan sinna marka og taka þátt í því með ferðaþjónustuaðilum að gera svæði sín að álitlegum valkosti fyrir ferðamenn. Það er ekki nógu gott að reiða fram einhverjar neyðarreddingar í fjáraukalögum til að byggja upp ferðamannastaði eins og gerðist síðastliðið haust. Slíkt ber vott um fullkominn skort á framtíðarsýn. Ferðaþjónustan er og hefur verið hraðvaxandi undanfarin ár og hennar vöxtur jafnvel orðinn of mikill fyrir ákveðin landsvæði meðan önnur gætu sem best tekið við því sem út af stendur. Þessi ört vaxandi atvinnugrein þarf trausta stefnumótun og lagaumhverfi.
Deilum gæðum
En það er líka mikilvægt að landsmenn allir geti notið góðs af þeim gæðum sem er að hafa á aðskiljanlegum svæðum landsins. Í því ljósi er ætti að vera sjálfsagt jafnréttismál að jafna húshitunar- og flutningskostnað sem enn er verulega íþyngjandi þáttur á köldum svæðum og veldur umtalsverðri mismunun milli landshluta. Undanfarin ár hafa unnist áfangar í því máli, en enn vantar verulega fjármuni til þess að nóg sé að gert í þessu sjálfsagða jafnréttismáli. Á þessu ári vantar um 215 millj. kr. til jöfnunar húshitunar og 65 millj. kr. til jöfnunar kostnaðar vegna raforkudreifingar.
Síðast en ekki síst þarf að gera þá kröfu að nægar fjárveitingar séu tryggðar í fjárlögum til að bæta aðgengi að menntun og tryggja öryggi sjúklinga og gæði heilbrigðisþjónustu um allt land. Ekki þarf að hafa mörg orð um mikilvægi þess að grunnþjónusta í mennta- og heilbrigðiskerfinu sé aðgengileg í heimabyggð. Það ætti líka að vera sjálfsagt mál að heimamenn hafi sjálfir mest um það að segja og geti jafnframt haft áhrif á það hvernig þjónustan er veitt. Ein s og sakir standa skortur verulega á að svo sé í reynd.
Ein þjóð í einu landi
Framtíðarsýn og langtímaáætlanir eru mikilvæg forsenda þess að hægt sé að efla byggðir landsins og skapa þeim umhverfi til vaxtar. Sú gamla byggðastefna að stýfa ölmusu úr hnefa í formi tímabundinna skyndilausna fyrir byggðirnar er úrelt fyrir löngu. Byggðirnar hafa ekkert að gera við plástra á svöðusár sín. Þær þurfa að fá að byggja upp grunnstoðir sínar og njóta auðlinda sinna, landgæða og mannauðs. Þess vegna er brýnt að áfram verði unnið á forsendum Sóknaráætlana landshlutanna sem hrint var af stokkum fyrir nokkrum árum en eftir að fjármunir voru skornir niður hefur þróttur þeirra þorrið að mun.
Byggðaröskun er ekki náttúrulögmál. Hún er afleiðing ákvarðana og aðgerða. Með sama hætti er hægt að taka ákvarðanir og grípa til aðgerða sem sporna gegn neikvæðri byggðaþróun. Byggðarlög í vanda gætu snúið vörn í sókn ef þau fengju bara réttu „verkfærin“. Til þess þarf hins vegar framtíðarsýn og vilja.
Við búum í harðbýlu og dreifbýlu landi – en við erum ein þjóð. Gleymum því ekki.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir,
Alþingismaður Samfylkingar í NV-kjördæmi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.