Biskup og barnaníð

Einhverstaðar segir Halldór Laxnes að Sölku Völku hafi alltaf orðið jafn mikið um í hvert skipti sem líf hennar var lagt í rúst. Mér skilst að margir hafi orðið forviða þegar vottfest varð að gamli biskupinn Ólafur Skúlason hafi verið barnaníðingur. Satt að segja á þetta ekki að koma á óvart, sagan sýnir að kynferðisglæpamenn er og hefur verið að finna í prestastétt, ekki síður en öðrum stéttum. Ég held að það sé mikil bjartsýni að sex ár í guðfræðideild breyti eðli eða öllu heldur óeðli kynferðisglæpamanna. Reyndar held ég að guðfræðinám sé ekki vitund öðruvísi en annað háskólanám. Nema hvað menn halda að þeir geti orðið umboðsmenn Almættisins á eftir.

            Þar liggur kannski hundurinn grafinn. Sumt fólk gerir miklar kröfur til presta og kannski meir til biskupa. En af hverju er að finna perverta meðal presta og biskupa. Það er jú brot á bæði guðs og manna lögum að leggjast á sín eigin börn og annarra og misnota þau. En hver segir að prestar og biskupar trúi frekar á guð en fólk í öðrum starfstéttum?

            Það kemur berlega í ljós þegar skoðuð eru viðbrögð presta við þeim ásökunum að æðsti yfirmaður þeirra hafi verið kynferðisglæpamaður. Málið var þaggað niður og fórnarlömbin niðurlægð og svívirt enn frekar. Öllum má vera ljóst að trúnaður núverandi biskups var hjá gamla biskupnum, ekki guði og sannarlega ekki þeim sem brotið var á. Mér finnst ótrúlegt að prestar landsins skuli ekki losa sig við núverandi biskup. Sá sem þegir yfir glæp og reynir að þagga niður í þolendum, er lítið skárri en brenglaði biskupinn.

            Það er alkunna að menn standa með starfsbræðrum sínu, læknar með læknum, löggur með löggum o.s.f.v. Mér sýnist að þetta mál sanni að sama gildir með prestana, þetta opnar vonandi augu stjórnvalda fyrir að þörf er á lagabreytingum. Prestar eiga að sitja við sama borð og aðrir opinberir starfsmenn, lúta sömu réttindum og skyldum. Kirkjan, þar að segja prestarnir, er gagnslaus til að sjá um málefni presta, enda sækjandi og verjandi sá sami.

            Fólk gengur úr Þjóðkirkjunni, en ég held að þurfi að ganga ögn lengra. Ég held að Þjóðkirkjan sé óþörf. Prestar eiga að heyra undir sitt ráðuneyti eins og aðrir opinberir starfsmenn, það mundi leysa ýmis vandamál sem upp koma, t.d. þegar prestar gerast full vinalegir við sóknarbörnin. A.m.k væri enginn í vafa um hvað ætti að gera við kennara sem gerði eitthvað slíkt, fyrir hann yrði ekki búið til nýtt starf á biskupstofu eins og fyrir sérann á Selfossi.

            Það var lærdómsríkt að horfa á gamla biskupinn sverja við guð og almættið í Kastljósinu. Kinnroðalaust laug hann og var fullur heilagri vandlætingu yfir ásökunum kvennanna sem hann svívirti. Það segir sína sögu um kirkjuna sem stofnun, að það hjálpar til að vera prervert og siðlaus lygari til að koma þar til æðstu metorða. Ef guð er til, er ég nokkuð viss um að það er ekki algilt að biskup þurfi að vera einn af hans eftirlætissonum. Árið 1344 fór Jón Gerreksson biskup í Skálholti nokkuð yfir strikið í sínu starfi, a.m.k. gripu nokkrir Skagfirðingar til þeirra ráða sem þeir töldu hæfa. Ég er ekki að segja að sömu ráð dugi nú en eitthvað róttækt verður að gera, meðan engin iðrunarmerki sjást á kirkjunnar þjónum.

Kári Gunnarsson.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir