Betra samband og bættar samgöngur á Vatnsnesi :: Áskorandinn Eygló Hrund Guðmundsdóttir Vatnsnesi
Þegar ég var lítil hefði mér sennilega aldrei dottið í hug að ég myndi búa í sveit þegar ég yrði stór. Í dag er ég búsett á Ásbjarnarstöðum á Vatnsnesi og er ásamt Guðmundi kærasta mínum að byggja íbúðarhús. Við höfum verið mjög lánsöm með alla hjálp við bygginguna og það er gaman að fylgjast með framtíðarheimilinu verða að veruleika.
Þegar ég kom hingað fyrst var notast við ADSL nettengingu og heimasíminn tengdur í koparlínu. Síðan þá hefur margt breyst og í dag erum við komin með ljósleiðara. Einnig stendur til árið 2024 að Rarik leggi þriggja fasa rafmagn hingað sem verður til mikilla bóta. Það sem háir okkur hérna á utanverðu Vatnsnesi er hins vegar farsímasamband. Hér í dalnum er mjög stopult símasamband sem hefur sína kosti og galla. Kostur að síminn hringir ekki og eiginlega einungis þeir sem þekkja þig kunna að ná á þig í síma. Eins og það getur verið kostur að vera ekki að fá óþarfa símtöl að þá er líka ókostur að fólk nái ekki á mann þegar þess þarf. Það sem er verst við þetta stopula símasamband er öryggisleysið hér í dalnum eins og t.d. við smalamennskur og skólaakstur.
Síðustu fjóra vetur höfum við séð um skólaakstur á vestanverðu Vatnsnesi. Ein af ástæðunum fyrir því að við buðum í þessa leið var að við búum næstum því á byrjunarreit, fyrsta stopp er á næsta bæ. Húnaþing vestra býður einnig upp á skólaakstur fyrir elstu tvo árgangana í leikskólanum ef pláss er í bílunum. Við höfum góða reynslu af því að aka leikskólabörnum og sveitarfélagið á hrós skilið fyrir þetta fyrirkomulag. Skólaakstur er frekar bindandi starf, getur verið krefjandi en að sama skapi finnst mér það mjög gefandi.
Ég er ein af þeim sem leyfi mér að dreyma um betri veg um Vatnsnesið og að hann Magnús Örn okkar, sem er á þriðja ári, fái ferðast á vegi með bundnu slitlagi mestan hluta leiðarinnar í skólann.
Ég skora á Ragnheiði Sjöfn Jóhannsdóttur að koma með pistil í Feyki.
Áður birst í 9. tbl. Feykis 2023
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.