Auðlindarstefna
Eitt af því mikilvægasta sem þjóð á eru náttúruauðlindir. Ríkar náttúruauðlindir gefa þjóðum samkeppnisforskot. Þegar við ræðum um íslenskar auðlindir þá erum við oftast að tala um fiskinn í sjónum og vatnið. Ég vil þó líta á málin í víðara samhengi. Við verðum að tryggja að auðlindir eins og olía verði líka í eigu þjóðarinnar. Því er mjög mikilvægt að við skilgreinum hugtakið þjóðareign í stjórnarskrá. Komist ég á stjórnlagaþing þá mun ég koma með mína hugmynd hvað hugtakið þjóðareign eigi að innihalda.
Þjóðareign
Af hverju er mikilvægt að skilgreina þjóðareign í stjórnarskrá? Í mínum huga á stjórnarskráin að snúast um grundvallarlög og réttindi. Það eru réttindi þjóðfélagsþegna að stjórnarskráin sé þannig að hún ógni ekki grunnstoðum samfélagsins. Auðlindir þjóðar eru eitt af grunnstoðum samfélagsins. Því verðum við að gæta þess að miklar og óvæntar breytingar eigi sér ekki stað í eignarhaldi á sjávarauðlindum sem og öðrum auðlindum.
Þó auðlindin sé í þjóðareign, þá er ekki þar með sagt að það eigi að útloka einkaaðilann frá því að nýta auðlindirnar. Ég er ekki að tala um að sjávarútvegsfyrirtækin séu í ríkiseigu. Í mínum huga er ekkert óeðlilegt við það að einkaaðilinn fái að njóta auðlindarinnar og vinna úr henni sína vöru, enda greiði hann gjald til réttmætra eigenda.
Hvernig getur einkavædd auðlindastefna unnið gegn samfélagshagsmunum? Ef einkaaðili er með kvóta sem hann getur framselt að vild, þá getur sú staða komið upp að sveitarfélagið sem viðkomandi útgerð er í flytji sig um set. Því miður nota menn enn rök að hann nonni og hún gunna muni aldrei svíkja sveitafélagið og selja kvótann burt. Þau eru svo miklir heimamenn. Vonandi hafa menn rétt fyrir sér í þeim efnum, en við verðum líka að horfa á þá staðreynd að einhverntímann hætta nonni og gunna afskiptum af rekstrinum. Þá er mjög líklegt að ættingjar taki við, en þó að ættingjar taki við þá er engin trygging fyrir því að þeir séu sömu skoðunar.
Sveitarfélag sem býr við þær aðstæður að kvótinn sé framseljanlegur, býr ávallt við þá hættu að hann verði seldur burt.
Hver er Pétur Óli?
Pétur Óli er giftur þriggja barna faðir með víðtæka reynslu úr atvinnulífinu, og er í framboði til stjórnlagaþings. Önnur mál sem ég mun berjast fyrir er þjóðaratkvæðagreiðsla og eins vil ég skilgreina rétt sveitarfélaga í stjórnarskrá.
Höfundur er í framboði til stjórnlagaþings og er með heimasíðuna peturoli.com
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.