Atvinna númer eitt
Á stefnuskrá Framsóknarflokksins í Skagafirði fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar eru atvinnumál sett í forgrunn. Fjölgun íbúa sveitarfélagsins er brýnasta verkefni nýrrar sveitarstjórnar. Það ætlum við framsóknarmenn að gera með sókn í atvinnumálum í Skagafirði með það að markmiði að fjölga störfum um a.m.k 100 á kjörtímabilinu.
Lykillinn að því markmiði er góð samvinna sveitarfélagsins, ríkis og atvinnulífs í samstilltu átaki á svæðinu. Efla þarf nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi í Skagafirði með það að markmiði að búa til störf sem eru aðlaðandi fyrir ungt fólk. Það þarf að búa til umgjörð um þetta verkefni með aðkomu sveitarfélagsins, skólasamfélagsins í Skagafirði og atvinnulífs. Áfram þarf að berjast fyrir uppbyggingu koltrefjaverksmiðju og Skagfirðingar eiga að fá að njóta þess frumkvæðis sem við höfum haft í því máli. Ef slík verksmiðja verður reist á Íslandi er eðlilegast að það verði í Skagafirði.
Möguleikar okkar í ferðaþjónustu eru miklir. Með átaki ferðaþjónustuaðila í Skagafirði og sveitarfélagsins eigum við sóknarfæri sem okkur ber að nýta. Nýting jarðvarma til atvinnusköpunar, uppbygging Alexandersflugvallar sem alþjóðlegs varaflugvallar, efling hestamennsku sem atvinnugreinar í Skagafirði og fjölgun opinberra starfa eru meðal þeirra fjölmörgu verkefna sem við framsóknarmenn ætlum að setja á oddinn næstu fjögur árin.
Stefán Vagn Stefánsson, oddviti B-lista Framsóknarflokks í Skagafirði
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.