Ást, afbrýði, ágirnd
Ástin leiðir fólk oft til ótrúlegra afreka en svo getur hún leitt fólk í ógöngur. Þegar svo afbrýði og ágirnd spilar inn í sömu sögu getur það leitt fólk til að fremja óhæfuverk. Þegar þetta kemur allt saman og kristallast í einni sögu geta afleiðingarnar orðið svo magnaðar að sagan lifir með þjóðinni og hægt er að segja söguna út frá mörgum sjónarhornum. Í mínum huga er ekki vafi að samspil þessara þátta var orsök ágæfuverkanna á Illugastöðum, þá Natan Ketilsson var myrtur, sem síðan leiddi til aftökunnar á Þrístöpum 1830.
Agnes var sakborninga elst. Vel gefin stúlka, sem hvarvetna kom sér vel, dugleg og verklagin, sama að hverju hún gekk og góð hannyrðakona. Eftirsótt til vinnu. Hún var alin upp á sveitinni, dóttir fátækra vinnukonu, skráð dóttir vinnumanns en allt hennar líf var hún efins um faðernið og hélt að trúlega væri hún dóttir bóndans á bænum, þar sem móðir hennar var í vist, þá hún kom undir. Hennar draumur var að verða húsfrú á myndarheimili, eiga mann og börn, hefjast upp úr þeirri örbirgð sem skóp líf móður hennar, móður sem hún í raun kynntist lítið því hún var svo ung sett til vandalausra.
Fórnarlambið Natan var maður sem ungur hneigðist til lesturs og afla sér fróðleik sem nýst gæti til þess að bæta líf og heilsu samborgaranna. Hans draumur var að verða læknir, geta líknað og hjálpað. Ungur hitti hann góða stúlku og þau sammála að æviveginn skildu þau ganga saman. Hann náði því marki sínu að fara til Kaupmannahafnar til mennta. Stúlkan ætlaði á meðan að bíða hans heima í festum. Atvik höguðu því þó svo að hann náði ekki að komast í raunverulegt læknisnám, enda fátækur maður sem átti ekki þann auð sem til þurfti. En hann vann hjá lyfsala og lærði margt. Sá lyfsali sem var hans mesti hjálparmaður dó hins vegar og leiðir til frekara náms í Kaupmannahöfn lokuðust. Hann hélt aftur heim með bækur sínar og eitthvað af lyfjum. Að öðru leiti snauður af veraldar auð en ríkur af reynslu.
Þegar heim kom fékk hann þær fréttir að stúlkan hans kæra var öðrum gefin og gift. Örugglega hafa foreldrar og vinir stúlkunnar talið betra að hún giftist góðbónda en bíða eftir einhverjum manni sem nennti ekkert að vinna, lægi í bókum og yrði aldrei öflugur maður sem sæi fjölskildu farborða. Þessi umskipti á högum stólkunnar tóku mikið á Natan og um tíma leit út fyrir að hans líf lenti í öngstræti. Með hjálp vina komst hann þó út úr þessu og hóf að útvega fólki lyf, sauð lyf úr jurtum og náði að lækna marga. Sú breyting var hins vegar orðinn að nú lét hann enga konu í friði og margar sögur til um hvernig hann náði til kvenna og umsneri lífi þeirra.
Þegar leiðir þessara einstaklinga lágu saman varð Agnes, eins og svo margar aðrar, bergnumin af fagurgala hans og töfrum. Þarna hélt hún að stóra ástin væri komin. Blásið var á allar sögur um hvernig hann færi með konur. Þær sem hann hafði áður hitt, höfðu bara ekki hentað honum. Þau voru sköpuð hvort fyrir annað. Á örskotsstund eftir einnar nætur gaman var hún vistráðin að Illugastöðum sem hans bústýra og væntingar um eitthvað meira voru miklar í hennar brjósti.
Þegar hún næsta vor kom í Illugastaði var Natan ekki heima. Hefur trúlega hagað því á þann veg af ásettu ráði. Á móti henni tekur ung stúlka, Sigríður að nafni aðeins 15 ára. Natan hafði áður sagt Agnesi að hjá honum væri frekar fávís ung stúlka. En stúlkan kynnti sig fyrir Agnesi sem bústýra hans og fannst mikið til koma að fá svo góða vinnukonu til að aðstoða sig og kenna sér. Vænti Sigríður mikils af veru Agnesar. Sagði henni að hún væri að búa sig sem best undir að verða húsfrú á Illugastöðum. Þannig voru væntingar Sigríðar og svona urðu þeirra fyrstu kynni. Það hlýtur að hafa tekið mjög á Agnesi miðað við hennar væntingar.
Þegar Natan mætti heima á ný lék hann sinn leik á tilfinningar beggja. Agnesi leyfði hann að koma til sín í smiðjuna, hans einkastað þar sem hann var með sín lyf og bækur. Þangað fengu fáir, jafnvel enginn annar að koma. Þar sauð hann líka lyf úr jurtum. Hann kenndi Agnesi sitthvað í þessum fræðum og hún fékk meira að segja lyklavöld að þessari einkaveröld hans að því sögur segja. Þar lék hann sér að tilfinningum hennar. Stundum blasti björt framtíð við henni, en svo komu dagar sem hann var ekki eins hlýr og ástríkur við Agnesi, þannig var hans háttur.
Inn í þessa sögu kemur svo ungur piltur úr sveitinni, Friðrik sem þá bjó með foreldrum sínum í Katadal. Þar heima var einnig kona þunguð af hans völdum. Friðrik var einn þeirra ungu manna sem langaði til að auðgast og var með háleita drauma eins og margir ungir menn. Hann öfundaði Natan af hans mikla auði. Hvort Natan var ríkur eða ei skal engin dómur lagður á, en margir héldu að hann væri ríkur.
Margar sögur voru til um hve mikið hann tæki fyrir sínar lækningar og seldi lyf fyrir mikinn pening. En það voru líka sögur um að hann tæki lítið af fátækum og jafnvel ekkert. Þannig var þekkt sagan þegar ríkur bóndi kom til hans og vildi fá hjá honum lyf til að gefa vinnukonu sinni. Hún væri ófrísk og vildi bóndi eyða fóstrinu. Natan tók bóninni vel en sagði að slíkt lyf kostaði mikið. Bóndi lét sig ekki og sagðist borga uppsett verð og Natan fór þá í sína lyfjasmiðju og kom með flösku með glærum vökva. Á flöskuna var skrifað á dönsku eða latínu eitthvað sem bóndi ekki skyldi enda ekkert að hugsa um einhverja skrift. Það var annað sem skipti hann máli. Borgaði uppsett verð og fór glaður með flöskuna með þessum galdradrykk. Nokkur tími leið þar til bóndi kom með flöskuna tóma til Natans og krafði hann um endurgeiðslu.
Ekkert gengi að koma fóstrinu úr vinnukonunni. Jæja sagði Natan, lastu ekki hvað stóð á flöskunni. Það sem þar stóð hafði bóndi ekki skilið, svo Natan þýddi það en þar stæði skírum stöfum, HREINT VATN. Bóndi varð reiður og krafði Natan um endurgreiðslu og bætur fyrir að hafa haft sig að féþúfu. Natan sagðist ekkert endurgreiða, en krafði bónda um verulega upphæð til viðbótar. Annars kæri ég þig fyrir vilja til að fremja glæp, drepa ófætt barn. Vitnaði hann í lög og fleira og svo fór að bóndi greiddi Natani þannig að hann færi ekki lengra með mál þetta.
Friðrik var yfir sig hrifinn af Sigríði. Hún var hans draumadís. Hann var hins vegar orðinn fullviss að hennar gæti hann aldrei fengið meðan Natan hefði öll ráð yfir henni. Örlagaþrunginn vetur var genginn í garð. Þræðir spunnust. Natan lék sér að Friðrik eins og köttur að mús. Gaf í skin hvar hann hefði grafið fé heima á Illugastöðum og sagði honum meir að segja að Skáld Rósa á Vatnsenda geymdi fyrir sig fé. Ef hann gæti fengið Skáld Rósu til að segja sér hvar féð væri eða findi það mætti hann eiga. Friðrik gerði tilraunir til að finna féð, m.a. fyrir áeggjan móður sinnar, sem þóttist hafa séð í draumi hvar fé Natans væri geymt.
Það var mikið sálarstreð á Vatnsnesinu þennan vetur. Natan var orðinn fullviss að um hans líf væri setið. Friðrik var á sama hátt orðinn viss um að ef hann dræpi ekki Natan myndi Natan drepa sig. Trúlega hefur Agnes átt sinn þátt í að spinna þennan vef. Búin að skynja rækilega að hennar framtíð væri ekki á Illugastöðum. Natan yrði aldrei hennar. Sögurnar sem hún hafði heyrt en ekki trúað væru sannar. Líf hennar var brotið.
Þetta er í örstuttu máli mín sýn á forleikinn að voðaverkunum á Illugastöðum, voðaverkum sem margt hefur verið skrifað um. Ekki útiloka ég að síðar fái ég aðra sýn á þessi mál. Eftir því sem dýpra er kafað opnast alltaf nýir kaflar. Fyrir tveimur árum hafði ég t.d. aðra sýn á hvernig Natan hafi verið. Hafði litla samúð með honum. En í dag sýnist mér að ástarsorg hans hafi breytt honum varanlega. Ástin hefur margar myndir og hún breytir mörgu og mörgum. Ágirndin hefur líka farið illa með marga. Allt of margir sjá auð í annars garði. Til eru þeir sem telja að voðaverkin á Illugastöðum hafi verið auðgunarbrot. Vissulega má lesa slíkt út úr málsskjölum. Ég efa þó að nokkru sinni hefði til alls þessa komið ef ástir og afbrýði hefðu ekki leikið það stórt hlutverk.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.