Allt er breytingum háð | Leiðari 40. tölublaðs Feykis
Framundan eru breytingar á netmiðlinum okkar, Feyki.is. Nútíminn kallar á nokkrar breytingar og þó sumum finnist nútíminn trunta þá er nú jafnan betra að mæta honum með opnum huga og gera sitt besta til að aðlagast breyttum aðstæðum.
Feykir mun koma út eins og áður vikulega. Blaðið er á 45. aldursári og má segja að þeir fjölmörgu sem gerðust áskrifendur í árdaga hafi verið duglegir að halda tryggð við Feyki og gert sér grein fyrir hvað það er mikilvægt fyrir ímynd svæðisins og þeirra sem þar búa að þar sé fjölmiðill sem einbeitir sér að því að flytja fréttir af Norðurlandi vestra – helst góðar – og veiti núverandi og fyrrverandi íbúum svæðisins verðskuld-aða athygli.
Netið er hins vegar nútíminn og þar hefur tíðkast að flest er frítt þegar kemur að fréttum og fréttasíðum. Þeir sem hafa alist upp með netinu gerast því miður alla jafna ekki áskrifendur að Feyki. Fyrir rúmum 15 árum fór Feykir.is í loftið og hefur nánast allar götur síðan verið öllum opinn. Fyrir ekki löngu var farið að loka einstaka viðtölum sem birtust á Feykir.is. Það má því í raun segja að hingað til hafi áskrifendur blaðsins greitt fyrir það efni sem hefur verið ókeypis á netinu.
Nú hefur verið ákveðið að loka á allt efni sem birt er á Feykir.is frá og með næstu mánaðamótum – nema að vísu aðsend-ar greinar og fréttir sem eiga brýnt erindi við almenning.
Það eina sem þarf að gera til að hafa aðgang að fréttum, viðtölum, tilkynningum og öðru því efni sem er á Feykir.is er að gerast rafrænn áskrifandi. Hlekk á áskriftarkerfið má finna á Feykir.is. Sumir eru þegar komnir með rafræna áskrift og geta lesið allt efni vefsins. Fleiri leiðir eru færar eins og að gerast einnig áskrifandi af blaðinu til að skoða það á netinu og sumir vilja einnig fá blaðið sent heim.
Mikil vinna liggur að baka öllu því efni sem birtist á vefnum og mikið af því kemst ekki fyrir í vikulegu blaði. Flestir héraðsmiðlanna hafa verið að fara þessa leið, eða hyggjast fara hana, og þar hafa lesendur tekið breytingunum vel – það er engin ástæða til að ætla að svo verði ekki hjá lesendum Feykis.
Hér er hlekkur á þrjár áskriftarleiðir hjá Feyki >
Við vonum að lesendur Feykis.is sýni þessu skilning og haldi áfram að standa með útgáfu og fréttaskrifum á Norðurlandi vestra.
Óli Arnar Brynjarsson
ritstjóri
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.