Ágæti kjósandi

Komandi sveitarstjórnarkosningar munu ráða því hverjir fara með þau málefni sem standa íbúum Skagafjarðar hvað næst í daglegu lífi og umhverfi. Sveitarstjórnir á Íslandi fara í ríkari mæli með þá heildarfjármuni sem eru okkar sameiginlegu sjóðir vegna þeirra fjölda verkefna sem ríkisvaldið hefur og vill færa yfir á sveitarfélögin. Sú ábyrgð sem færist á kjörna sveitarstjórnarfulltrúa fer því vaxandi. Þetta verður að hafa í huga kjósandi góður þegar þú velur  hvort, eða hverja þú ætlar að kjósa á kjördag.

Við Skagfirðingar erum það lánsöm að búa yfir ríkulegum landgæðum og miklum mannauði í okkar sveitarfélagi. Það dylst hins vegar engum að fjárhagsstaða sveitarfélagsins er orðin mjög alvarleg. Skuldastaðan nálgast óðum þau þolmörk, sem rekstur sveitarfélagsins getur staðið undir. Það er dapurlegt að núverandi meirihluta í sveitarstjórn skuli hafa mistekist að nota góðærið á fyrri hluta kjörtímabilsins til þess að rétta af stöðu sveitarsjóðs í stað þess að safna sífellt meiri skuldum. Í raun er ekkert í þeim áætlunum sem lagðar hafa verið fram af þessum meirihluta, að snúa af þeirri braut. Þetta blasir við nú í umræðunni í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna og Skagfirðingar hafa vaxandi áhyggjur af þessari þróun. Lausn á fjárhagsstöðu sveitarfélagsins verður helsta verkefni næstu sveitarstjórnar.

Sjálfstæðisflokkurinn mun leggja ríka áherslu á það í næstu sveitarstjórn, að aðhalds verði gætt í rekstri sveitarfélagsins á sama tíma og allra leiða verður leitað til að auka tekjur með fjölgun starfa og eflingu atvinnulífs. Þetta kann að hljóma kunnuglega en staðreyndin er sú, að þetta eru þær lausnir sem eru í boði. Þær munu duga okkur ef skynsamlega er á málum haldið. Núverandi meirihluti sveitarstjórnar hefur sannað, að fyrirlestrar um atvinnuþróun og samræðustjórnmál leysa ekki vandamál morgundagsins.

Sjálfstæðisflokkurinn býður hins vegar fram kraftmikinn lista fyrir þessar kosningar, lista sem skipaður er fólki með reynslu úr mennta- og atvinnulífi okkar héraðs. Við höfum þekkingu á framkvæmdum, rekstri fyrirtækja og meðferð opinbers fjár. Þá þekkingu og krafta okkar viljum við bjóða fram til þess að vinna á tímabundnum erfiðleikum í rekstri sveitarfélagsins. Kjósandi góður, treystu okkur í Sjálfstæðisflokknum og við munum vinna saman að byggingu betra samfélags til framtíðar.  

Jón Magnússon,

skipar 1. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Skagafirði

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir