Áfram Skagafjörður
Kosningarnar 29.maí eru mikilvægar fyrir Skagfirðinga alla, því þá gefst þeim tækifæri á að velja sér fulltrúa til að stýra sveitarfélaginu næstu fjögur árin. Framsóknarflokkurinn hefur verið við stjórn sveitarfélagsins frá 2006. Á þeim tíma hefur mikið áunnist og samfélaginu fleytt áfram sér í lagi ef litið er til tímabilsins þar á undan, tímabil Sjálfstæðisflokks og V-grænna, tímabil stöðnunar, afturhaldssemi og ákvörðunarfælni.
Mikið hefur áunnist á kjörtímabilinu og má þar nefna byggingu leikslóla á Sauðárkróki, menningarhúss í Varmahlíð, sundlaug á Hofsós, stækkun verknáms Fjölbrautarskóla NV og mikilla veituframkvæmda um allt hérað. Ráðist var í mörg viðhaldsverkefni á eignum sveitarfélagsins sem lítið hafði verið sinnt á fyrra kjörtímabili. Grettistaki var lyft í umhverfismálum og nýju sorpflokkunarkerfi komið á sem setur Skagafjörð í úrvalsflokk á því sviði.
Hús Frítímans var tekið í notkun á kjörtímabilinu þar sem saman koma ungir og aldnir í frítíma sínum. Óhætt er að segja að vel hafi tekist til þrátt fyrir hrakspár ýmisa aðila. Nú er svo komið að Hús frítímans er orðið að fyrirmynd sem önnur sveitarfélög líta til og hefur hróður verkefnisins borist út fyrir landssteinana.
Aðalskipulag sveitafélagsins var samþykkt eftir 12 ára umræður og þras og er það grundvöllur þess að hægt sé að halda áfram í þeirri vinnu að skipuleggja nánar einstök svæði innan sveitarfélagsins.
Kosningarnar 29. maí munu snúast um áframhaldandi uppbyggingu eða stöðnun.
Verkefni nýrrar sveitastjórnar munu fyrst og síðast snúast um atvinnumál og að standa vörð um þá þjónustu sem nú þegar er innan sveitarfélagsisn. Kosningarnar munu einnig snúast um að standa vörð um þau opinberru störf og þær opinberu stofnanir sem fyrir eru og tryggja að þær verði ekki fluttar úr héraði, heldur efldar og störfum fjölgað. Í þessu samhengi má benda á niðurskurðarárásir heilbrigðisráðherra Vinstri grænna gagnvart heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki .
Ný sveitastjórn þarf að vinna með atvinnulífinu að uppbyggingu nýrra atvinnutækifæra í héraði og aðstoða þau fyrirtæki sem fyrir eru til að eflast og stækka.
Þrátt fyrir erfiða tíma í þjóðfélaginu er tækifærin mörg fyrir Skagfirðinga og þau tækifæri verður að nýta. Möguleikar í ferðaþjónustu er miklir og er nauðsynlegt að sveitarfélagið og aðilar í ferðaþjónustu taki höndum saman um markaðsetningu Skagafjarðar sem ferðaþjónustuhéraðs. Sem dæmi um möguleika má nefna að búist er við um 80.000 ferðamönnum með skemmtiferðaskipum til Akureyrar nú í sumar. Lítið sem ekkert af þessu fólki kemur vestur í Skagafjörð og má öllum vera það ljóst að ef brot af þessu fólki kæmi í Skagafjörð myndi það verða mikill hvalreki fyrir ferðaþjónustuaðila í héraði.
Trefjamál hafa mkið verið rædd undanfarin ár og viðræður staðið yfir um byggingu koltrefjaverksmiðju í Skagafirði. Þessi mál hafa tafist vegna stöðu efnahagsmála en eftirspurn eftir koltrefjum hrundi. Ljóst má vera að eftirspurnin mun aftur aukast og þurfum við Skagfirðingar að vinna ötullega til að tryggja þessu máli farsælan endi fyrir héraðið.
Ýmis önnur tækifæri bíða og má þar nefna m.a. uppbygging loðdýraræktar, mögleikar á aukinni ylrækt, þróunarverkefni í líftækni í samvinnu við háskólasamfélagið og fyrirtæki í Skagafirði, markaðsetning Skagafjarðar sem tökustaðar í kvikmyndagerð og hugmyndir um að gera Skagafjörð að miðstöð fornleifarannsókna í Evrópu.
Grundvöllur þess að Skagafjörður fái þrifist er gott samspil þéttbýlis og dreifbýlis en hvorugt getur vaxið án hins. Að þessu verður að hlúa og efla hinar dreifðu byggðir í Skagafirði.
Ef auka á atvinnutækifærin, fjölga á störfum og efla byggðina þarf grunnnetið að vera undir það búið. Sveitafélagið þarf að vera tilbúið með lóðir fyrir einstaklinga og fyrirtæki sem vilja setjast hér að og eins þarf að leggjast í vinnu með atvinnulífinu um uppbyggingu leiguíbúða en mikill skortur er á slíku nú. Skólakerfið þarf einnig að geta tekið á móti nýjum einstaklingum og ber nýr leikslóli á Sauðárkróki fráfarandi meirihluta fagurt vitni um framtíðasýn þeirra í þeim efnum.
Byggin nýrrar álmu við Árskóla hefur verið til umræðu í samfélaginu og í sveitarstjórn og voru skiptar skoðanir þar um. Framsóknarmenn lögðu til að farið yrði í þá framkvæmd en ekki náðist samstaða um það mál í sveitastjórn. Okkur framsóknarmönnum er það ljóst að þessi framkvæmd er nauðsynleg samfélaginu og leita þarf leiða til að hrinda henni af stað sem fyrst. Framkvæmdin er ekki bara til að mæta afar brýnni þörf fyrir bætta aðstöðu nemenda og starfsfólks, heldur mun hún auka samkeppnishæfni Skagafjarðar í harðandi samkeppni sveitarfélaga um ný atvinnutækifæri og íbúa.
Í kosningabaráttunni höfum við lagt áherslu á sama málflutning hvar sem er í héraðinu, ólíkt öðrum flokkum. Áberandi hefur verið að aðrir flokka hafa lofað hundruð milljóna framkvæmdum um leið og þeir segja fjárhagsstöðu sveitarfélagsins slæma. Er þetta trúverðugt?
Ég hef hér stiklað á stóru varðandi þau tækifæri og verkefni sem framunda eru. Af nógu er að taka. Tækifærin eru fyrir hendi, okkar að nýta þau.
Ég vill einnig nota þetta tækifæri og þakka fyrir það traust sem mér er sýnt með því að leiða lista framsóknamanna í Skagafirði í komandi kosningum.
Það er okkar að tryggja áframhaldandi framsókn í Skagafirði næstu fjögur árin. Það gerum við með því að setja X við B á morgun.
Stefán Vagn Stefánsson
Oddviti lista framsóknarflokksins í Skagafirði.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.