Af tveimur skáldum | Ragnar Þór Pétursson kennari skrifar

Ragnar Þór Pétursson kennari.
Ragnar Þór Pétursson kennari.

Það var í frosti og hríð, snemma í apríl, nokkru fyrir þarsíðustu aldamót, að séra Matthías fékkst ekki til að koma í kvöldmat á heimili sínu á Akureyri. Sem var óvenjulegt. Matthíasi lét sig yfirleitt ekki vanta við máltíðir (eins og sást á honum). Þar að auki átti yngsti sonur hans afmæli þennan dag. Eftir árangurslausa tilraun til að fá karlinn til að líta upp af skrifborðinu ákvað eiginkona hans að hún og börnin myndu borða ein. Og það gerðu þau. Alllöngu seinna birtist Matthías loks í dagstofunni, skælbrosandi, rjóður og reifur. Hann hafði eytt síðustu klukkutímum í glaðasólskini hugans við að yrkja það sem hann átti eftir að kalla „kvæðismynd“ um Skagafjörð.

Kvæði Matthíasar er enn sungið og heita má að allir Íslendingar, sem hafa einhvern sögulegan metnað, þekki upphafslínuna. Línuna þar sem Matthías baðar Skagafjörð sólskini af fallegum útsýnisstað.

Ég var einu sinni svo heppinn að verða samferða ömmu minni á leið hennar frá Akureyri til Reykjavíkur og uppgötvaði þá að hún og afi höfðu rækt þá hefð, sem eflaust var leifar frá tímum hestaferða, að stoppa bílinn ótal sinnum á leiðinni til að borða nesti og hvíla sig. Þau stoppuðu ætíð við minnisvarða Stephans G. Það var hefð. Ef veður var gott var hægt að setja sig í spor Matthíasar og dást að fjallahringnum. Ef útsýnið vantaði var hægt að rifja upp einhverja af hinum ótalmörgu sögum sem enn lifa í minni þjóðarinnar. Söguna af Solveigu, Flugumýrarbrennu, djöflum og útlögum í Drangey eða blóðugum bardaga á Örlygsstöðum. Eða, eins og í því tilfelli þar sem við amma sátum við minnisvarðann og mauluðum samlokur, að hugsa aðeins um örlög Stephans G, skáldsins sem sat við þjóðveginn og grét þegar hann sá heldri manna syni ríða hjá á leið suður í skóla.

Mér var hugsað til alls þessa þegar ég sá, mér til mikillar furðu, að frammámaður í stjórnmálunum í Skagafirði hoppaði nýverið á heyvagn úrtölufólks og lýsti því yfir að skólarnir í Skagafirði væru líklega alls ekki nógu góðir. Því væri að minnsta kosti ekki hægt að treysta. Hann þóttist heyra viðvörunarbjöllur klingja og nú þyrfti hið snarasta að tengja skólana í sveitarfélaginu við öll heimsins mælitæki til að athuga hvort þeir væru boðlegir. Helst þyrfti að fá einhvern utanaðkomandi til að koma og meta þá – eða jafnvel flytja inn skólastarf frá öðrum sveitarfélögum til þess að skólinn væri íbúunum samboðinn. Einhvern sem kæmi ríðandi að sunnan með menntunina í malnum.

Nú veit ég lítið sem ekkert um andblæinn í Skagafirði um þessar mundir en áhugafólk um menntamál þarf að hafa lifað undir steini til að vita ekki að skólarnir í Skagafirði hafa verið stórkostlegasta „landkynning“ Skagfirðinga síðasta áratug eða svo. Og hefur ekki veitt af til að vega upp á móti þeirri neikvæðu ímynd að sveitarfélagið sé fast í helgreipum sérhagsmunafla sem drottna og deila gagnvart lifendum og dauðum.

Sú jákvæða kynning sem skólamál í Skagafirði hafa skapað bæði innan landsteina og utan væri milljarða virði ef hægt væri að kaupa hana. Það er hinsvegar ekki hægt. Hún er afrakstur heiðarlegrar, faglegrar vinnu fjölda fólks sem á hverjum degi fer á fætur og gerir sitt besta fyrir samfélagið sitt. Í höndum fólks, sem hefur rauverulegan áhuga og vit á menntamálum, getur það aðdráttarafl sem sveitarfélagið hefur í skólamálum veitt mikilvægt forskot á tímum vaxandi kennaraskorts og annarra áskorana. Maður hefði haldið að þau sem héldu þar um valdasprota gerðu sér grein fyrir því.

En nei. Þar ræður ríkjum einhver Kristófer. Sem ég minnist þess ekki að hafa nokkru sinni séð eða heyrt til í umræðu um skólamál, hvorki í Skagafirði né annarsstaðar. Ég hef aldrei hitt hann þegar ég hef heimsótt skóla í Skagafirði þegar þeir hafa staðið opnir áhugafólki um menntamál. Það sem ég veit er að Kristófer þessi ákvað að læsa sig inni á sólríkum júlídegi og neitaði að koma í mat. Uns hann birtist loks niðurlútur, grár og gugginn með nýja kvæðið sitt, nánast rakur af allri súldinni sem hann skrúfaði frá í eigin huga til að hylja sólina í Skagafirði.


Þessi eina frétt sem eftir honum er höfð – um að allar viðvörunarbjöllur klingi í Skagafirði og nauðsyn sé að kryfja þar allt skólastarf til mergjar og mæla upp á nýtt – hefur þegar valdið sveitarfélaginu miklum skaða. Í einu vetfangi fer Skagarfjörður frá því að vera fyrirmynd annarra sveitarfélaga þegar kemur að menntamálum, eftirsóttur vettvangur til að kynna sér og læra af, spennandi staður til að starfa á og einn frjóasti vaxtarbroddur íslensks samfélags, yfir í það að vera yfirlýst frat af eigin ráðamönnum.


Ef pólitískur fulltrúi, sem Skagfirðingar hafa valið sér til forystu, stykki fram á ritvöll ferðaþjónustunnar og héldi því fram á landsvísu að Grettislaug væri að öllum líkindum skítköld og full af saurgerlum (þetta þyrfti allavega að mæla með haustinu) og Örlygsstaðir lítið annað en illa þýft tún sem auðvelt væri að ökklabrjóta sig á, er ég hræddur um að heyrast myndi hljóð úr horni. Slíkur maður væri réttilega talinn afglapi. Kristófer hefur samt ákveðið að vera slíkt andlit fyrir skólamál í Skagafirði.

Við sem horfum á málin utanfrá hljótum að álykta að hann hafi uppgötvað eitthvað hræðilega glatað við skólana sem við sjálf höfum fylgst með og jafnvel dáðst að í meira en áratug. Hann hljóti að hafa uppgötvað alvarlega vankanta á innra mati skólanna, galla í skólaþróunarverkefnum eða hrun í mælingum eins og Skólapúlsi. Því annars myndi maðurinn ekki haga sér svona.

Það má vel vera að „Skín við sólu Skagafjörður“ sé ofstuðlun og það sé alls ekki alltaf sól í Skagafirði. Það var ekki þess vegna sem Skagfirðingar hafa varðveitt kvæðið. Það er einfaldlega mikilvægt að lyfta stundum því sem vel er gert og vekja á því athygli. Þótt ekki sé til annars en að veita innblástur þegar bylurinn dynur.

Ég ætla að fullyrða að skólafólk í Skagafirði hafi lagt sín lóð (og rúmlega það) á vogaskálar þess að vekja jákvæða athygli á Skagafirði með ástríðu, fagmennsku og sköpunarkrafti af þeirri gerð sem á sér varla hliðstæðu á Íslandi. Ég ætla líka að fullyrða að slydduskáldið Kristófer skuldi skólafólki í Skagafirði afsökunarbeiðni á því að vaða fram með þeim hætti sem hann gerði (ekki sem foreldri eða íbúi í Skagafirði, heldur sem sá pólitíski trúnaðarmaður sem íbúar sveitarfélagsins hafa valið til að gæta þess gulleggs sem menntun er).

Ég vona að skólafólk í Skagafirði láti ekki slá sig út af laginu og vil ljúka þessum pistli á að þakka því fyrir að hafa verið eitt af leiðarljósum menntakerfisins okkar á miklum umbrota og óvissutímum. Þið megið vita að þótt einhverjir af þeim sem standa ykkur næst kunni ekki að meta framlag ykkar, þá er miklu fleira fólk (og ég leyfi mér að segja flest fólk sem vit hefur á menntamálum) sem ber virðingu fyrir starfi ykkar og lítur upp til þess sem þið hafið gert.

Ragnar Þór Pétursson,
kennari

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir