Að vera fullvalda fiskveiðiþjóð
Yfirstandandi samningaviðræður Evrópuþjóða um makrílveiðar hafa fært okkur Íslendingum heim sanninn um það hversu gríðarlega mikilvægt það er fyrir Ísland að eiga sjálfstæða fullvalda rödd í þeim viðræðum.
Uppsetning viðræðnanna segir okkur meira en mörg orð um það hvaða stöðu okkur væri búin sem aðildarríkis innan ESB. Við samningaborð þessara viðræðna sitja í dag fulltrúar fjögurra ríkja. Ísland er eitt þeirra, Færeyjar annað, Noregur er það þriðja en það fjórða er Evrópusambandið.
Þannig eiga makrílþjóðir eins og Bretar og Spánverjar, með langa sögu af makrílveiðum, ekki sjálfstæða rödd í þessum viðræðum. Þess í stað situr Evrópusambandið beggja megin borðs í málefnum þessara þjóða, deilir og drottnar. Þegar kemur að deilistofnum í hafinu getur enginn ágreiningur verið um það að fullveldi ESB ríkjanna er ekki fyrir hendi.
Ísland hefur í meira en áratug lagt áherslu á að ná samningum um makrílveiðarnar á grundvelli sjálfbærrar þróunar og réttlátrar skiptingar. Þar viljum við gegna skyldum okkar sem strandríki en þeim ber alltaf skylda til að ná saman um deilistofna. Með því að útiloka í fjölda ára bæði Ísland og Færeyjar frá viðræðunum hefur Evrópusambandið í reynd brugðist hlutverki sínu sem eitt strandveiðiríkjanna. Breyting varð hér á 2009 en engu að síður eru þjóðirnar langt frá samkomulagi og tilboð um að Ísland fái 3% af stofninum þegar allt að fjórðungur hans er hér í eldi er langt því frá að vera raunhæft.
Í yfirstandandi viðræðum birtist Evrópusambandið okkur líkast hinum gömlu nývelduveldum sem deildu, drottnuðu og beittu fjarlægar þjóðir ofríki. Norðmenn virðast hér milli steins og sleggju. Það má geta sér til að þeir óttist að hlutdeild Íslands geti orðið að hlutdeild Evrópusambandsins.
Hugmyndir innan Evrópusambandsins um að það eigi makrílinn einnig eftir að hann er kominn inn í íslenska fiskveiðilögsögu er ef til vill forsmekkurinn að því sem koma skal á þeim bæ ef Ísland gengur inn í hið evrópska stórríki.
Höfundur er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.