Vísindaferð kvikmyndabrautarnemenda FNV í tengslum við RIFF
Hópur kvikmyndagerðarnema á kvikmyndabraut Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra (FNV) fór í síðustu viku í árlega vísindaferð til Reykjavíkur í tengslum við Alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í Reykjavík (Reykjavík International Film Festival, RIFF). Lagt var af stað á fimmtudagsmorgni og komið heim á laugardagskvöldi.
Nemendur á kvikmyndabraut FNV hafa undanfarin ár heimsótt hátíðina og tekið þátt í henni auk þess að heimsækja fyrirtæki og stofnanir sem tengjast kvikmyndagerð og fjölmiðlun. Á fimmtudeginum heimsótti hópurinn tækjaleiguna Kukl ehf. sem er stærsta og sérhæfðasta tækjaleiga landsins sem þjónustar bæði innlenda og erlenda kvikmyndaframleiðendur. Þar tók á móti hópnum Dagur de’Medici Ólafsson, sem reyndar á ættir að rekja í Skagafjörðinn. Að lokinni heimsókn í Kukl fór hópurinn í Efstaleiti á fræðslu og kynningu á starfssemi RUV ohf. Þar tók á móti okkur Sigrún Hermannsdóttir (systurdóttir Árna Stefánssonar, íþróttakennara á Sauðárkróki). Þaðan var síðan haldið á Kvikmyndahátíðina RIFF. Að morgni föstudags tókum við þátt í svo nefndum “Bransadögum” og kynntum heimildamyndina “Velkomnir í Síkið!”, sem Skotta Film framleiðir. Eftir hádegi á föstudeginum heimsóttum við Sýn og Stöð2 en þar tóku á móti okkur Þóra Björg Clausen, dagskrárstjóri Stöðvar2 og Eva Georgs. Ásudóttir, framleiðslustjóri. Í lok heimsóknarinnar á Sýn var heilsað upp á skagfirðinginn Auðun Blöndal og félaga hans, Sveppa, Steinda, Gils og Fannar sem kenndur er við Hraðfréttir.Á föstudagskvöldinu var kynning á kvikmyndabraut FNV á RIFF í anddyri Háskólabíós. Þargafst gestum og gangandi tækifæri á að heimsækja Drangey og Málmey í 360°sýndarveruleikagleraugum.
Á laugardeginum heimsótti hópurinn hljóðverið “Upptekið” og Gunnar Árnason hljóðmann með meiru, sem bauð upp á snittur, gos og afar áhugaverðan fyrirlestur um hljóðverið, hljóðsetningu og sína eigin reynslu af AD/HD. Síðdegis á laugardag var haldið til baka heim á Krók en við viljum nota tækifærið og þakka öllum kærlega fyrir frábærar móttökur.
Árni Gunnarsson, kvikmyndagerðarmaður og kennari.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.