Villi Árna í forystusveit Sjálfstæðisflokksins með Bjarna og Þórdísi
Kosningar fóru fram í gær um forystusveit Sjálfstæðisflokksins á seinasta degi 44. landsfundar sem hófst á föstudaginn. Nokkur spenna hafði ríkt um formannssætið þar sem Guðlaugur Þór Þórðarson hafði boðið sig fram gegn sitjandi formanni Bjarna Benediktssyni. Þá var kosið á milli þriggja sem boðið hafði fram krafta sína í ritaraembættið og fór svo að Skagfirðingur hreppti hnossið.
Á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins er sagt frá traustum sigri Bjarna Benediktssonar sem var endurkjörin formaður Sjálfstæðisflokksins. Hlaut hann 1010 atkvæði af 1700 gildum atkvæðum eða 59,4%. Guðlaugur Þór Þórðarson hlaut 687 atkvæði. Tólf seðlar voru auðir og ógildir. „Kæru vinir - gleðilega hátíð!
Krafturinn í Sjálfstæðisfólki er áþreifanlegur nú þegar við komum saman til landsfundar í fyrsta sinn í fjögur ár. Þvílík veisla! Gærdagurinn var áminning um það að þegar við sjálfstæðismenn komum saman er ekkert sem stöðvar okkur.
Það eru forréttindi að fá að veita stærsta stjórnmálaflokki landsins formennsku. Stærsta flokknum á þingi - og langstærsta flokknum í sveitarstjórnum um allt land. Ég leyfi mér líka að fullyrða að það sé einsdæmi á Íslandi að jafn margir séu reiðubúnir að fórna tíma sínum og vinnu til þess að leggja stjórnmálahreyfingu lið. Ég er stoltur af því - en líka afskaplega þakklátur,“ skrifar Bjarni m.a. á Facebook-síðu sína: „Ég er stoltur af því að fá að leiða þennan frábæra hóp sem leggur sjálfstæðisstefnunni lið og tekur þátt í að móta framtíðina með okkur og er fullur tilhlökkunar fyrir næstu dögum.“
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir var endurkjörin varaformaður með 1.224 atkvæðum eða 88% af gildum atkvæðum. 50 atkvæði voru auð og ógild. Þórdís var sú eina sem hafði boðið sig formlega fram.
Vilhjálmur Árnason er nýr ritari flokksins. Greiða þurfti atkvæði tvisvar í ritarakjöri og hlaut Vilhjálmur 538 atkvæði í seinni umferð eða 58,2%. Bryndís Haraldsdóttir hlaut 386 atkvæði. 13 atkvæði voru auð og ógild. Helgi Áss Grétarsson bauð sig einnig fram til ritara.
„Kæru vinir!
Það er einstök tilfinning að ná settu marki og mig langar að þakka ykkur kærlega fyrir stuðninginn. Ég hlakka til starfa minna sem ritari Sjálfstæðisflokksins og að fara um landið allt til fundar við sjálfstæðisfólk. Ég hef einsett mér að heimsækja öll Sjálfstæðisfélög á landinu enda hefur ritari sérstökum skyldum að gegna gagnvart fólkinu í flokknum.
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er að baki og það var eflandi og hressandi fyrir okkur öll að hittast, ræða þjóðmálin og skemmta okkur. Eins og ég nefndi í ræðu minni í dag að þá skiptir það engu máli núna hver studdi hvern, allt slíkt er að baki og nú tökum við höndum saman.
Það skiptir máli í lýðræðisríki að ræða hreinskilnislega saman fyrir opnum tjöldum og hafa raunverulegt val um forystu og áherslur. Aðeins þannig styrkja stjórnmálaflokkar sig og geta orðið fjöldahreyfingar, eins og Sjálfstæðisflokkurinn
Ég vil þakka Bryndísi Haraldsdóttur og Helga Áss Grétarssyni fyrir drengilega keppni og öðrum þeim sem gáfu kost á sér til forystu og trúnaðarstarfa fyrir flokkinn okkar. Ykkar framboð eru hjartsláttur lýðræðisins, því án frambjóðenda sem kjósendur hafa val um er ekkert frelsi - sem væri synd því frelsið er yndislegt!“ skrifar Vilhjálmur á Facebook-síðu sína. Eins og flestir vita er Vilhjálmur Skagfirðingur að upplagi en situr á Alþingi fyrir Suðurkjördæmi, búsettur í Grindavík.
Landsfundurinn þótti takast sérlega vel og var sá fjölmennasti sem haldinn hefur verið í sögu Sjálfstæðisflokksins.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.