Við biðjum um þinn stuðning!
Næstkomandi laugardag ganga íbúar Húnavatnshrepps og Blönduósbæjar til kosninga í nýju sameinuðu sveitarfélagi. Sjálfstæðismenn og óháðir hafa undanfarnar vikur unnið hörðum höndum að stefnuskrá framboðsins. Við ætlum að láta íbúa sveitarfélagsins njóta góðs af rekstrarhagræðingu sameiningar og búa til fjölskylduvænt, framsýnt og metnaðarfullt samfélag meðal annars með lækkun leikskólagjalda. Með stuðningi samfélagsins ætlum við að byggja okkar starf á vinnu sameiningarnefndar þar sem grunnur var lagður af skipulagi nýs sveitarfélags. Við viljum efla innviðina í samfélaginu okkar enn frekar, samhliða því að ástunda ábyrga fjármálastjórn sem er forsenda framfara.
Við ætlum að byggja á skipuriti sameiningarnefndar þar sem gert er ráð fyrir fjórum stjórnsýslusviðum; stjórnsýslu og fjármálasviði, þróunarsviði, velferðarsviði og framkvæmdasviði. Með kaupum ríkisins á stjórnsýsluhúsnæði Blönduósbæjar opnast tækifæri fyrir nýtt stjórnsýsluhús sem sameinar alla starfsemi sveitarfélagins undir eitt þak, sem og eflingu sýslumannsembættisins og lögreglunnar.
Við ætlum að fjölga störfum meðal annars með því að ráða mannauðsstjóra til sveitarfélagsins og efla starf menningar-, íþrótta- og tómstundafulltrúa og bæta við ferðamálum svo úr verði tvö störf.
Þau sveitarfélög sem nú verða sameinuð í eitt, mynda mörg minni samfélög. Við viljum að styrkleikar þeirra fái að njóta sín. Við viljum stefnumörkun í íþrótta- og æskulýðsstarfi sem áherslu á forvarnir í samvinnu við íþróttafélögin. Við viljum fjallskiladeildir starfi í núverandi fyrirkomulagi. Við viljum leggja áherslu á að fá fullvinnslu ullar heim í hérað og auka þannig áherslu á rannsóknir og þróun í textíliðnaði, ásamt því að fjölga atvinnutækifærum. Við viljum að stofnuð verði Umhverfisakademía á Húnavöllum til að tryggja starfsemi og uppbyggingu á Húnavallasvæðinu. Við viljum efla bæði félags- og skólaþjónustu með aukinni stoðþjónustu sem og leggja áherslu á húsnæðisuppbyggingu fyrir aldraða, meðal annars í samstarfi einkaaðila. Við leggjum áherslu á sterka innviði, öryggi og samgöngubætur í héraðinu. Við ætlum að sameina grunnskóla sveitarfélagsins á einn kennslustað haustið 2023. Við munum vinna náið með skólasamfélaginu, starfsmönnum og foreldrum, í því verkefni til að sem mest sátt ríki.
Fjögur framboð hafa boðið fram krafta sína til sveitarstjórnar. Við biðjum um þinn stuðning. Á lista Sjálfstæðismanna og óháðra eru 18 einstaklingar, níu konur og níu karlar, sem allir hafa brennandi áhuga á því að byggja upp öflugt, metnaðarfullt og fjölskylduvænt samfélag. Fólkið sem myndar listann er búsett víða um sveitarfélagið, í dreifbýli og þéttbýli. Reynsla þeirra úr samfélaginu er víðtæk. Á listanum eru bændur, iðnaðarmenn, kennarar og fólk í þjónustustörfum víðsvegar um sveitarfélagið.
Bakland framboðsins, er sterkt. Þingmenn kjördæmisins, bæði Sjálfstæðisflokks og óháðra þingflokka hafa sýnt í verki að þeir munu vinna með framboðinu hér eftir sem hingað til. Það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir uppbyggingu sveitarfélagsins.
Við sem gefum kost á okkur til að starfa í sveitarstjórn, og í raun allir íbúar sveitarfélagsins, þurfum og eigum að vera samstíga í að minna hvert annað á hvað betur megi fara. Tölum um það sem vel er gert og horfum jákvæðum augum fram á veginn og þau tækifæri sem gefast, gerum lífið í samfélaginu enn betra - saman. Setjum X við D á kjördag.
Guðmundur Haukur Jakobsson,
oddviti Sjálfstæðismanna og óháðra í
sameinuðu sveitarfélagi Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.