Veiði dræm á lélegu laxveiðisumri

Margur veit ekkert himneskara en að eltast við lax í fallegri veiðiá. Hér er veitt í Miðgjarðará nú í haust. MYND: STEBBI LÍSU
Margur veit ekkert himneskara en að eltast við lax í fallegri veiðiá. Hér er veitt í Miðgjarðará nú í haust. MYND: STEBBI LÍSU

Húnahornið er ávalt með puttann á púlsinum þegar kemur að veiði í hinum eftirsóttu veiðiám í Húnavatnssýslum. Þar segir nú frá því að lélegu laxveiðisumri sé nú að ljúka og eru flestar laxveiðiár að loka eða þegar búnar að því. Raunar má segja að umræða um eldislax, sem hefur laumast leyfislaust í veiðiárnar nú á haustdögum, hafi skyggt á umræðu um lélega veiði.

Laxveiðitímabilinu er lokið í Miðfjarðará en þar veiddust 1.334 laxar í sumar á tíu stangir sem er 188 löxum færra en í fyrra þegar 1.522 laxar veiddust. „Sömu sögu má segja um allar helstu laxveiðiárnar í Húnavatnssýslum, fækkun varð fjölda veiddra laxa, og það á einnig við um flestar ár landsins. Miðfjarðará endaði í þriðja sæti yfir aflamestu árnar á landinu.

Laxveiði er lokið í Laxá á Ásum og veiddust 660 laxar á fjórar stangir en í fyrra urðu þeir 820 talsins. Víðidalsá lokaði einnig nýlega og veiddust þar 633 laxar á átta stangir en í fyrra voru þeir 810 talsins. Vatnsdalsá hefur skilað 382 löxum á sex stangir en lokatölur í fyrra urðu 415. Blanda hefur skilað 359 löxum á átta stangir en í fyrra endaði sumarið með 577 löxum. Hrútafjarðará er komin í 177 laxa á þrjár stangir en endaði í fyrra á 257 löxum og Svartá er komin í 131 lax á þrjár stangir en í fyrra endaði áin í 189 löxum,“ segir orðrétt í frétt Húnahornsins.

Áhugasamir geta velt fyrir sér veiðitölum í helstu laxveiðiám landsins á www.angling.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir