Umsjónarmaður með Málmey í Skagafirði
Páll Magnússon hefur látið af störfum sem umsjónarmaður með Málmey. Skagafjörður auglýsir því eftir umsjónarmanni með Málmey á Skagafirði. Málmey er stærsta eyjan á Skagafirði, um 160 ha að stærð. Hún er fremur láglend en hækkar til norðurs. Sunnanvert er eyjan úr móbergi en norðurhlutinn er hraundyngja. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur lagt til að Málmey verði sett á framkvæmdaáætlun (B-hluta) náttúruminjaskrár, sbr. 33. gr. laga um náttúruvernd. Útbreiðsla hvannar er mikil í eyjunni. Mikilvæg sjófuglabyggð er á Málmey og þar kæpa um 90% af útselum Norðvesturlands og um 6,5% af heildarstofninum.
Núverandi viti í Málmey var byggður árið 1937 en vitinn er í eigu og umsjón Vegagerðarinnar. Talsverðar minjar eru í Málmey og eru þær m.a. skráðar í byggðasögurannsókn sem unnin var á vegum Byggðasafns Skagfirðinga frá árinu 2013.
Umsjónarmaður með eyjunni skal fylgjast með og standa vörð um fuglalíf Málmeyjar og öðru náttúrufari eyjarinnar. Veiðar í eyjunni skulu aðeins heimilar í samræmi við gildandi lög og reglugerðir hverju sinni og eingöngu leyfðar undir ströngu eftirliti umsjónarmanns þar sem tekið verður tillit til náttúrusjónarmiða umfram annað. Umsjónarmaður skal leitast við að gefa ferðafólki kost á að komast til eyjarinnar og njóta þar friðsældar og fylgjast með fuglalífi og öðru náttúrufari. Umsjónarmaður skal hafa eftirlit með öllum ferðum í Málmey. Umsjónarmaður skal hafa eftirlit með að umgengni um minjar eyjarinnar sé góð og að þeim stafi ekki hætta af átroðningi af manna völdum.
Það gjald sem umsjónarmaður fær fyrir að hafa umsjón með Málmey er að nýta þau hlunnindi sem eyjan gefur af sér.
Nánari upplýsingar veitir Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri í síma 455-6000 eða á netfangið sigfus@skagafjordur.is.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.