Tvær stúlkur úr Skagafirði í U-21 í hestaíþróttum

Landsliðshópur U-21 var kynntur í verslun Líflands á Lynghálsi í vikunni. Þórgunnur og Björg eru 4. og 5. frá vinstri af landsliðshópnum. Mynd: Lhhestar/ Aron Valur Hinriksson.
Landsliðshópur U-21 var kynntur í verslun Líflands á Lynghálsi í vikunni. Þórgunnur og Björg eru 4. og 5. frá vinstri af landsliðshópnum. Mynd: Lhhestar/ Aron Valur Hinriksson.

Þær Björg Ingólfsdóttir og Þórgunnur Þórarinsdóttir úr hestamannafélaginu Skagfirðingi hafa verið valdar í U21-landsliðshóp Íslands í hestaíþróttum en skrifað var undir samninga í gærmorgun í höfuðstöðvum Landssambands hestamannafélaga í Laugardalnum. Tvær skagfirskar hestakonur eru þar á meðal tíu annarra knapa en stórt tímabil er framundan á HM ári.

Á heimasíðu LH kemur fram að Hekla Katharína Kristinsdóttir, þjálfari U21 landsliðsins, hafi svo kynnt hópinn í verslun Líflands á Lynghálsi. Þar benti hún á að hópurinn ætti það sameiginlegt að allir þeir knapar sem hann skipar væri afreksfólk í sínum aldursflokki og byggju einnig yfir frábærum hestakosti sem þau bjóða fram sem valkost á Heimsmeistaramótið sem haldið verður í Hollandi. Ljóst er þó að einungis fimm ungmenni verða valin til keppni þar en ætlunin er að þangað fari allra sterkustu keppnispör frá Íslandi.

Knaparnir eru á aldrinum 16 – 21 árs og það eru þau sem hafa heimild til að keppa á heimsmeistaramóti og segir í frétt sambandsins að að þessu sinni hafi tólf knapar verið valdir í hópinn í þessu fyrsta úrtaki en landsliðsþjálfari muni ekki hika við að taka inn ný keppnispör sem sýna það að þau eigi heima í þessum hópi.

„Hópurinn að þessu sinni er mótaður með markmið sumarsins í huga. Þar munum við mæta á Heimsmeistaramót íslenska hestsins með fimm knapa og þessir fimm knapar þurfa að dekka fjórgangsgreinar, fimmgangsgreinar og skeiðgreinar. Ísland stefnir á framúrskarandi árangur á þessu móti. Það er ekkert minna,“ er haft eftir Heklu Katharínu. „Það er spennandi vetur framundan og veit ég að þau er nú þegar farin á fullt í undirbúning fyrir keppnistímabilið,“ bætir hún við.

Björg Ingólfsdóttir er frá Dýrfinnustöðum, dóttir Ingólfs Helgasonar og Unnar Erlu Sveinbjörnsdóttur en hún stefnir með Kjuða í fimmgangsgreinar á HM.

Þórgunnur Þórarinsdóttir býr á Sauðárkróki, dóttir Þórarins Eymundssonar og Sigríðar Gunnarsdóttur, og stefnir hún m.a. með Íslandsmeistarann Hnjúk frá Saurbæ í fjórgangsgreinar á HM.

Knaparnir eru:
Arnar Máni Sigurjónsson, hestamannafélagið Fákur, stefnir m.a. með Storm frá Kambi í fimmgangsgreinar á HM.
Benedikt Ólafsson, hestamannafélagið Hörður, stefnir m.a. með Íslandsmeistarann Leiru-Björk í gæðingaskeið á HM.
Björg Ingólfsdóttir, hestamannafélagið Skagfirðingur, stefnir með Kjuða í fimmgangsgreinar á HM.
Glódís Rún Sigurðardóttir, hestamannafélagið Sleipnir, stefnir m.a. með Íslandsmeistarann Drumb frá Víði-Völlum fremri á HM.

Herdís Björg Jóhannsdóttir, hestamannafélagið Sprettur, stefnir m.a. með Íslandsmeistarann Kvarða frá Pulu á HM.
Jón Ársæll Bergmanna, hestamannafélagið Geysir, stefnir m.a. með Íslandsmeistarann Rikka frá Stóru-Gröf á HM.
Kristófer Darri Sigurðsson, hestamannafélagið Sprettur, stefnir m.a. með Ás frá Kirkjubæ í fimmgangsgreinar á HM.
Matthías Sigurðsson, hestamannafélagið Fákur, stefnir m.a. með Dýra frá Hrafnkelsstöðum í fjórgangsgreinar á HM.

Sara Dís Snorradóttir, hestamannafélagið Sörli, stefnir m.a. með Engil frá Ytri-Bægisá í fimmgangsgreinar á HM.
Signý Sól Snorradóttir, hestamannafélagið Máni, stefnir með Kolbein frá Horni í fjórgangsgreinar á HM.
Védís Huld Sigurðardóttir, hestamannafélagið Sleipnir, stefnir með Hrafnfaxa frá Skeggsstöðum í fjórgangsgreinar á HM.
Þórgunnur Þórarinsdóttir, hestamannafélagið Skagfirðingur, stefnir m.a. með Íslandsmeistarann Hnjúk frá Saurbæ í fjórgangsgreinar á HM.

Nýr A-landsliðshópur

Frá hægri: Ísólfur Líndal aðstoðarlandsliðsþjálfari, Sigurbjörn Bárðarson landsliðsþjálfari, Jakob Svavar Sigurðsson, Sigursteinn Sumarliðason, Eyrún Ýr Pálsdóttir, Benjamín Sandur Ingólfsson, Jóhanna Margrét Snorradóttir, Teitur Árnason, Ragnhildur Haraldsdóttir, Sara Sigurbjörnsdóttir, Viðar Ingólfsson, Helga Una Björnsdóttir, James Faulkner, Elvar Þormarsson, Konráð Valur Sveinsson, Hans Þór Hilmarsson, Ásmundur Ernir Snorrason, Árni Björn Pálsson, Guðmundur Björgvinsson, Bergþór Eggertsson. Mynd af Lhhestar.is.

Líkt og hjá yngra landsliðinu er hörkuár framundan hjá eldra liðinu og ljóst að í mörg horn verður í að líta fram að HM. Sigurbjörn Bárðarson landsliðsþjálfari og Ísólfur Líndal Þórisson aðstoðarþjálfari kynntu liðið í lok seinasta mánaðar og útskýrðu valið á hverjum knapa í þaula.

Hópurinn að þessu sinni samanstendur af 18 knöpum alls, þar af eru fjórir ríkjandi heimsmeistarar sem hafa sæti í liðinu til þess að verja titla sína á heimsmeistaramótinu í Hollandi í sumar og fjórtán liðsmenn valdir af þjálfurum. Þar á meðal má finna þrjá knapa af Norðurlandi vestra þau Bergþór Eggertsson og Helgu Unu Björnsdóttur, sem bæði eru ættuð úr Húnaþingi vestra, og Eyrúnu Ýr Pálsdóttur, Skagafirði. Þá er annar landsliðsþjálfaranna, Ísólfur Líndal Þórisson, úr Húnaþingi vestra. 

Val landsliðsþjálfara:
Árni Björn Pálsson
Ásmundur Ernir Snorrason
Bergþór Eggertsson
Elvar Þormarsson

Eyrún Ýr Pálsdóttir
Hans Þór Hilmarsson
Helga Una Björnsdóttir
Jakob Svavar Sigurðsson

James Faulkner
Jóhanna Margrét Snorradóttir
Ragnhildur Haraldsdóttir

Sara Sigurbjörnsdóttir
Sigursteinn Sumarliðason
Viðar Ingólfsson

Þjálfarar:
Sigurbjörn Bárðarson
Ísólfur Líndal Þórisson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir