„Þetta er vítamínsprauta,“ segir Pétur Ara

Pétur Arason. MYND AF FACEBOOK
Pétur Arason. MYND AF FACEBOOK

„Þrátt fyrir að þetta sé geggjaður árangur þá væri sennilega of djúpt í árina tekið að setja þetta sem mesta íþróttaafrek Húnvetninga. Hvöt hefur áður verið í þriðju efstu deild, þannig að þetta er jöfnun hvað varðar knattspyrnu og bara frábært. Við eigum síðan endalaust mikið af afreksfólki í gegnum tíðina t.d. í frjálsum og fleiru,“ segir Pétur Arason, sveitarstjóri Húnabyggðar, aðspurður um afrek Kormáks/Hvatar að sigla fullri ferð upp í 2. deild.

Hefurðu fylgst með gengi liðs Kormáks/Hvatar í sumar og hefurðu áhuga á fótbolta? „Ég hef mikinn áhuga á fótbolta og spilaði sjálfur sex ár í meistaraflokki, þar af fjögur ár með Hvöt. En það er skömm frá því að segja að ég hef því miður ekki haft nógu mikinn tíma aflögu eða nógu sterka athyglisgáfu í sumar til að fylgjast vel með og sá alltof fáa leiki.“

Hvaða áhrif heldurðu að þessi velgengni hafi á samfélagið? „Þetta er vítamínsprauta, engin spurning. Þegar vel gengur smitar það jákvæðni í samfélagið. Íslandsmeistaratitill Tindastóls er eins og allir vita magnað dæmi um það þar sem ekki bara Norðurland vestra heldur allir á Norðurlandi smituðust af velgengninni og stemningunni. Þó þetta afrek sé ekki alveg sambærilegt þá er þetta engu að síður mikilvægt fyrir samfélagið.“

Áttu einhvern uppáhalds leikmann í liðinu? „Eins og áður segir þá fór ég ekki á nógu marga leiki í sumar en ég mundi samt alltaf nefna Sigurð Aadnegard sem er sannur fyrirliði sem fór fyrir sínum mönnum þegar gaf á bátinn og tók síðustu þrjá leikina í markinu!“

Standa Húnvetningar sameinaðir að baki sameinuðu liði Kormáks og Hvatar? „Það get ég ekki ímyndað mér annað, enda er Þjarkurinn sameiningartákn.“

Hefur velgengnin vakið meiri fótboltaáhuga í þínu umhverfi, eru fótboltamálin t.d. rædd á kaffistofunni? „Já, fótboltamál hafa verið mikið í umræðunni á kaffistofum í sumar, mikil dramatík og spenna þrátt fyrir að liðið væri allan tímann á leiðinni upp.

Ertu með einhver skilaboð til liðsins? Þegar ég spilaði með Hvöt fyrir rúmum 30 árum vorum við með Finnboga Hilmarsson sem prótókólgúru og hans speki var einföld: Virðing í klúbbinn!. Okkur fannst þetta mikil snilld og fallegt og þetta hlýtur að eiga jafn vel við í dag og þá,“ segir Pétur að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir