Þarf ekki stór­ar töl­ur til að valda óbæt­an­legu tjóni á villtu stofn­un­um

Laxveiðimenn eru sárir og reiðir og óttast um villta laxastofninn. MYND: GUÐMUNDUR HAUKUR
Laxveiðimenn eru sárir og reiðir og óttast um villta laxastofninn. MYND: GUÐMUNDUR HAUKUR

Feykir sagði frá því í vikubyrjun að tveir ætlaðir eldislaxar hafi verið háfaðir upp úr laxastiga við Blöndu um liðna helgi. Mbl.is greindi síðan frá því í gær að níu grunsamlegir laxar til viðbótar hafi nú bæst í hópinn og laxarnir því orðnir ellefu sem Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri Hafrannsóknarstofnunar, kippti með sér suður til rannsóknar nú í vikunni.

Sporðakastið á mbl.is segir sérfróða menn „...ótt­ast að hundruð þess­ara laxa séu í sjón­um vest­an við landið. Hvort og hvenær þeir halda í ferskvatn er ekki hægt að svara en það þarf ekki stór­ar töl­ur til að valda óbæt­an­legu tjóni á villtu stofn­un­um í þeim ám þar sem eld­islax­inn hef­ur gert inn­rás.“

Í fréttinni segir ennfremur að talið sé að um 750 villt­ir lax­ar hafi gengið í gegn­um stiga og telj­ara í Blöndu í sum­ar. „Miðað við hversu marg­ir eld­islax­ar eru staðfest­ir á vatna­svæðinu er auðvelt að átta sig á hversu mik­il hætt­an er á erfðablönd­un. Ómögu­legt er að segja hversu marg­ir eld­islax­ar eru þegar gengn­ir í Blöndu en einn slík­ur veidd­ist í síðustu viku í Svar­tá.“

Feykir hafði samband við veiðiréttarhafa í Skagafirði, Valgarð Ragnarsson, en hann kannaðist ekki við að eldislax hefði fundist í skagfirsku ánum ennþá, í það minnsta ekki í Húseyjarkvíslinni og Staðará. 

Nánar má lesa um málið á mbl.is og víðar.

UPPFÆRT. Í fréttum Sjónvarps í kvöld var sagt frá því að eldislax hefði fundist í Hjaltadalsá í Skagafirði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir