Tanja M. Ísfjörð Magnúsdóttir valin Maður ársins af lesendum Feykis
„Eftir að hafa upplifað mikla útskúfun í samfélaginu tók Tanja völdin í eigin hendur og hélt fyrstu Druslugönguna sem haldin hefur verið á Sauðárkróki við góðar undirtektir. Tanja er í Öfgum sem er femínista hópur sem berst gegn kynbundnu ofbeldi og styður við þolendur kynferðisofbeldis. Hún tók þátt í að skrifa skuggaskýrslu um kvennasáttmálann og ávarpaði þing Sameinuðu þjóðanna,“ segir í tilnefningu Tönju en hún fékk flest atkvæði þeirra sem tilnefnd voru til Manns ársins 2022 á Feykir.is.
Tanja er 27 ára brottfluttur húsvískur Sauðkrækingur sem býr í Sola í Noregi, trúlofuð, með tvö börn, Aríu Björk sex ára og Eið Bjarka fjögurra ára og einnig eru tveir hundar á heimilinu. Hún er með bachelorgráðu í sálfræði og hefur barist gegn kynbundnu ofbeldi seinustu sjö árin og nú seinasta eitt og hálft árið með samstarfskonum í Öfgum.
Hvernig tilfinning er það að hafa verið kjörin Maður ársins á Norðurlandi vestra af lesendum Feykis?
-Heyrðu þetta er þvílíkur heiður, ég er meyr og þakklát fyrir það að hafa verið tilnefnd og hvað þá fyrir það að hafa verið kosin. Það hefur verið mjög erfitt fyrir mig seinustu ár að koma heim á Krók þannig þetta kom mér mjög á óvart og það er erfitt að lýsa því með orðum hvað mér þykir vænt um þetta. Takk!
Þú stendur fyrir því að Druslugangan er farin á Sauðárkróki í sumar. Hvernig tókst það til og hvernig fannst þér viðtökur vera?
Frá Druslugöngunni á Sauðárkróki sl. sumar. Mynd: IÖF.
-Ég fékk rosalega mikla aðstoð frá Erlu Einarsdóttur og fleirum sem auðveldaði þetta mikið. Vil bara nýta þennan platform til að þakka öllum sem gengu með okkur og lögðu fram hjálparhönd, gangan hefði ekki orðið að veruleika án ykkar allra. Ég var stressuð um dræma mætingu en allt gekk vonum framar þó ég hefði viljað sjá enn fleira fólk. Ég upplifði mikið meiri jákvæðni en neikvæðni sem keyrði mig áfram. Það hefur verið þörf á einhverju þolendavænu átaki á Sauðárkróki lengi og mörg sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi þar heyrt í mér með svipaðar sögur og mín eigin sem varð til þess að ég dreif þetta í gang. Á minni stöðum ríkir oft meiri meðvirkni en annars staðar og fólki finnst oft erfitt að líta inn á við og endurskoða viðhorf sín en ég tel að það sé öllum holt að reyna það. Öll þekkja öll og það er erfitt að trúa því upp á ástvini sína að þeir geti gert eitthvað illt.
Nafn þitt er þekkt sem öflugur málssvari þolenda kynferðisofbeldis á Íslandi og margt breyst í þjóðfélaginu eftir að Öfgar beittu sér í þessum málefnum. Hvað finnst þér hafa áunnist og hvað sérðu fyrir þér með framhaldið?
-Ég sé t.d. breytingu á Sauðárkróki, hef fengið margar afsökunarbeiðnir persónulega og upplifi minni andúð gegn mér og minni baráttu fyrir þolendur. Ég sé líka að samfélagið í heild sinni er orðið meðtækilegra fyrir frásögnum þolenda þó það sé ennþá langt í land. Það eru færri sem efast og fleiri sem trúa. Við erum meira meðvituð um að góðir menn geti gert slæma hluti og að heimurinn sé ekki svona svarthvítur heldur séu þolendur og gerendur alls konar fólk. Við sjáum Alþingi bregðast við alls konar kröfum frá þolendum og vitundarvakningin nær lengra en bara til þeirra sem hafa vitað þetta allan tímann. Við sjáum fleiri karla blanda sér í málin og taka upp hanskann fyrir þolendur. Núna er komið að því að reyna að finna út hver næstu skref eru - þolendur ná í meira mæli að skila skömminni en hvað ætlum við að gera svo?
Í tilnefningu er bent á að þú hafir átt þátt í að skrifa skuggaskýrslu um kvennasáttmálann og ávarpað þing Sameinuðu þjóðanna. Hvað geturðu sagt frá þeim viðburði?
-Ég tók þátt í skrifum á Skuggaskýrslunni fyrir hönd Öfga með Kvenréttindafélagi Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands, UN Women á Íslandi og Öryrkjabandalagi Íslands þar sem við svöruðum því sem okkur finnst að betur mætti fara í framkvæmd Íslands á Kvennasáttmálanum. Þar var ég aðallega að einbeita mér að réttarkerfinu - hversu rosalega hátt niðurfellingahlutfall á kærðum kynferðisbrotum er, að þó mál séu felld niður þá er hægt að kæra þolendur fyrir rangar sakargiftir þó ekkert sé fyrir því bara til að beita þolendur áframhaldandi ofbeldi, hversu þung sönnunarbyrðin er í þessum málum þó þau gerist yfirleitt í friðhelgi einkalífsins - það þarf að skoða það eitthvað því eitt nei kærðs manns vegur hærra en sannanir (dna, vitni, áverkar t.d.) og orð þess sem kærir. Að það geti liðið ár eða lengri tími frá kæru þangað til sá sem er kærður sé yfir höfuð tekinn í skýrslutöku, tafir á rannsóknartíma, hversu oft landsréttur snýr við dómum í kynferðisbrotamálum (oftar en í öðrum málum) o.s.frv. Skrifaði líka aðeins um stöðu kvenna í íþróttum. Ég ávarpaði nefnd Sameinuðu þjóðanna um Kvennasáttmálann ásamt Margréti hjá Mannréttindaskrifstofu Íslands þar sem við lögðum áherslu á nokkra punkta úr skýrslunni.
Linda Rós Ísfjörð tók við blómum og heiðursskjali fyrir hönd
dóttur sinnar sem farin var til síns heima í Noregi. Mynd: PF.
Hvað stóð upp úr á árinu sem er að líða og hvernig leggst nýja árið í þig?
-Kjarna fjölskyldan mín: Börnin, maðurinn og loðbörnin, allt sem tengist þeim er auðvitað alltaf hápunktur alls. Aktivistalega séð þá segi ég Druslugangan sem ég hélt og allt annað sem ég áorkaði þrátt fyrir mikil veikindi. Fékk tvær viðurkenningar með Öfgum ásamt þessari tilnefningu sem er mér rosalega mikilvæg því þá sé ég að ég er að gera hluti sem skipta máli þannig að gagnrýnisraddir og hótanir ná ekki að þagga niður í mér.
Ég horfi björtum augum á nýja árið. 2022 reyndist mér erfitt þar sem ég missti afa minn og var að glíma við mikil veikindi tengd bandvefssjúkdóm sem ég er með. Leiðin hlýtur að vera upp á við núna.
Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri?
-Reynum að vanda okkur, beitum gagnrýnni hugsun og verum óhrædd að ögra rótgrónum hugmyndum sem geta verið skaðlegar. Ofbeldi þrífst í þögninni svo við megum ekki leyfa hlutunum að þaggast niður. Berjumst gegn gerendameðvirkni og reynum að bera virðingu fyrir hvort öðru. Ps. Legg til að þetta verði kallað manneskja ársins en ekki maður ársins!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.