Stór gangna- og réttahelgi framundan
Það er útlit fyrir kalda og blauta smala- og réttahelgi hjá okkur hér á Noðurlandi vestra, um helgina. Þegar litið er yfir gangnaseðla í fjórðungnum má sjá að mjög margir hafa verið við smölun síðustu daga eða eru í þann mund að reima á sig gangnaskóna. Það eru flestir dagar helgarinnar undir en nær þó aðeins fram yfir þessa helgina því ekki er réttað fyrr en á mánudag í Silfrastaðarétt í Blönduhlíð í Skagafirði.
Það mæðir ekki bara á gangnamönnunum sjálfum þessa helgina því allt sem við kemur sauðfjárrækt er yfirleitt ekki á herðum eins manns og þegar mikið liggur við, eins og að heimta fé af fjalli, þarf að kalla til allan þann auka mannskap sem fjárbændur hafa tök á að kalla til, til að aðstoða í réttum. Einhverjir þurfa svo að vera í því að nesta allan mannskapinn, því nestið er eins og hitt – partur af prógramminu.
Hjá mörgum er mikil hefð í kringum göngur og réttir. Leyfist mér að fullyrða að þetta eru dagarnir sem ansi margir hafa fest í sínu dagatali, jafnvel ef litið yrði mörg ár aftur í tímann. Ég ætla að leyfa mér að vera með aðra fullyrðingu þegar ég segi að kjötsúpa verður sennilega soðin í ansi mörgum pottum víða þessa helgina. Með von um góðar heimtur, þokulaus fjöll, dali og heiðar, óska ég gangna og réttarfólki góðs gengis og munið að ganga hægt um gleðinnar dyr og farið varlega.
Hér er rétt að enda á lista yfir réttir helgarinnar.
Fjárréttir í Húnavatnssýslum þessa helgina:
- Auðkúlurétt við Svínavatn, A.-Hún. laugardaginn 9. september kl. 9.00.
- Fossárrétt í A.-Hún. laugardaginn 9. september.
- Hlíðarrétt / Bólstaðarhlíðarrétt, A.-Hún. laugardaginn 9. september kl. 16.00.
- Hrútatungurétt í Hrútafirði, V.-Hún. laugardaginn 9. september kl. 9.00.
- Kjalarlandsrétt, A.-Hún. laugardaginn 9. september.
- Miðfjarðarrétt í Miðfirði, V.-Hún. laugardaginn 9. september.
- Skrapatungurétt í Laxárdal, A.-Hún. sunnudaginn 10. september kl. 9.00.
- Stafnsrétt í Svartárdal, A.-Hún. laugardaginn 9. september kl. 8.30.
- Sveinsstaðarétt, A.-Hún. sunnudaginn 10. september kl. 10.00.
- Undirfellsrétt í Vatnsdal, A.-Hún. föstudaginn 8. september kl. 13.00 og laugardaginn 9. september kl. 8.00.
- Valdarásrétt í Fitjárdal, V.-Hún. föstudaginn 8. september kl. 9.00.
- Víðidalstungurétt í Víðidal, V.-Hún. laugardaginn 9. september kl. 10.00.
Fjárréttir í Skagafirði þessa helgina:
- Deildardalsrétt í Deildardal, laugardaginn 9. september.
- Hraunarétt í Fljótum, föstudaginn 8. september.
- Laufskálarétt í Hjaltadal, sunnudaginn 10. september.
- Mælifellsrétt, sunnudaginn 10. september.
- Sauðárkróksrétt (Króksrétt), laugardaginn 9. september.
- Selnesrétt á Skaga, Skagabyggð, laugardaginn 9. september.
- Silfrastaðarétt í Blönduhlíð, mánudaginn 11. september.
- Skarðarétt í Gönguskörðum, sunnudaginn 10. september.
- Skarðsárrétt, sunnudaginn 10. september.
- Staðarrétt (Reynisstaðarrétt), sunnudaginn 10. september.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.