Stelpurnar í 4. flokki lutu í gras eftir vítaspyrnukeppni

Stelpurnar fagna síðara marki sínu í leiknum. MYNDIR: ÓAB
Stelpurnar fagna síðara marki sínu í leiknum. MYNDIR: ÓAB

Það var hörkuleikur á Sauðárkróksvelli í gærkvöldi þegar Tindastóll/Hvöt/Kormákur og Stjarnan/Álftanes mættust í undanúrslitum Íslandsmótsins í 4. flokki kvenna. Fjórða flokk skipa leikmenn sem eru 14 ára og yngri og er óhætt að fullyrða að stelpurnar gáfu allt í leikinn sem fór bæði í framlengingu og að lokum vítaspyrnukeppni þar sem gestirnir að sunnan höfðu á endanum betur og tryggðu sig í úrslitaleik gegn liði FH. Staðan að loknum venjulegum leiktíma var 2-2 en liðunum tókst ekki að reka smiðshöggið í framlengingu.

Sennilega hafa aldrei fleiri mætt í nýju stúkuna við gervigrasvöllinn á Króknum en í gær, enda koma stúlkurnar í liði Tindastóls/Hvatar/Kormáks af öllu Norðurlandi vestra og foreldrar og bekkjarfélagar duglegir að mæta og stemningin góð. Þá fylgdi dágóður hópur liði gestanna sem var sömuleiðis gaman að sjá.

Það var þoka um mest allt Norðurland vestra í gær og Sauðárkróksvöllur þar engin undantekning. Veðrið stillt og fínt en á köflum var tæpt á því að það sæist á milli marka.

Leikir í 4. flokki kvenna eru 2x35 mínútur og það var um miðjan fyrri hálfleik (18. mínútu) sem Skagstrendingurinn Birgitta Rún Finnbogadóttir kom heimastúlkum í THK yfir með laglegu marki. Sunnanstúlkur hertu sóknina í kjölfarið og Ásthildu Lilja Atladóttir jafnaði metin með bilmingsskoti úr teignum á 24. mínútu sem Stefana Björg Guðmannsdóttir í marki heimastúlkna átti ekki séns í. Staðan 1-1 í hálfleik.

Síðari hálfleikur var varla tveggja mínútna gamall þegar Hvammstangastúlkan Saga Ísey Þorsteinsdóttir náði forystunni á ný fyrir THK. Stelpurnar voru eiginlega enn að fagna og varla komnar í baráttugírinn á ný þegar Hrafnhildur Salka Pálmadóttir jafnaði leikinn. Bæði lið fengu færi til að klára leikinn en sunnanstúlkur voru meira með boltann.

Í framlengingu (2x10 mín)mættu bæði lið til leiks í fimmta gír og gáfu allt í leikinn en þeim gekk þó illa að skapa sér færi þó ekki vantaði viljann. Það var því gripið til vítaspyrnukeppni fyrst ekkert var skorað í framlengingu og þar reyndust taugar gestanna sterkari. Heimastúlkur klikkuðu á þremur spyrnum af fimm en gestirnir settu eina spyrnu í þverslá.

Stuðningsmenn klöppuðu í leikslok vel og lengi fyrir leikmönnum liðanna sem skemmtu áhorfendum vel og gáfu hörkuleik. Sannarlega frábær árangur hjá stelpunum okkar og vonandi vísir að enn meiri uppsveiflu í kvennaboltanum á okkar svæði. Þá skal liði Stjörnunnar/Álftaness óskað til hamingju með sigurinn. 

Leikskýrsla á vef KSÍ >

Samvinnuverkefni sem bætir, hressir og kætir

Í umfjöllun um yngriflokkastarfið í fótboltanum í Feyki í gær var sagt frá því að Tindastóll/Hvöt/Kormákur tefldu fram sameiginlegu liði í nokkrum flokkum. Liðin þrjú eru ekki eingöngu skipuð fótboltahetjum frá Sauðárkróki, Blönduósi og Hvammstanga en þessi þrjú félög eiga öll lið sem taka þátt í Íslandsmótum. Undir hatti Tindastóls eru því ekki bara Króksarar heldur líka krakkar sem koma frá Neista Hofsósi, Smára í Varmahlíð, Hólum eða úr sveitinni. Sama gildir um Hvöt á Blönduósi, þar eru krakkar úr sveitinni og frá Ungmennafélaginu Fram á Skagaströnd að taka þátt í Íslandsmóti undir merki Hvatar o.s.frv.

Það má því segja að hér sé um alvöru samvinnuverkefni að ræða á Nirðurlandi vestra!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir