Söngvinnir síungir söngvarar syngja í Krúttinu
Stefán Hilmarsson og Eyjólfur Kristjánsson halda tónleika í Krúttinu á Blönduósi á morgun, laugardaginn 16. september, og verður skellt í fyrsta gítargripið klukkan níu að kveldi. Stebbi og Eyfi bjóða upp á söngva frá ýmsum tímum, n.k. þverskurð af ferli þeirra félaga, jafnt saman sem sitt í hvoru lagi, í bland við hæfilegan skammt af gríni og gáska.
Krúttið er í húsnæði sem fyrrum hýsti bakaríið á Blönduósi (sem hét Krútt) og er í Gamla bænum. Um er að ræða viðburðasal sem tengist rekstri Hótel Blönduóss, sem nýlega opnaði eftir gagngerar endurbætur. Nýi salurinn mun vafalítið fara vel með kempurnar krúttlegu og gesti þeirra.
Þó Feykir hafi ekki komist yfir lagaprógramm þeirra félaga þá má ætla að sígildir smellir á borð nið Nínu, Ég lifi í draumi, Líf, Góða ferð og Þín innsta þrá muni hljóma í Krúttinu og kannski fá einhver Sálarlög að fylgja með. Raddir Stebba og Eyfa falla saman sem flís við rass og það verður enginn svikinn af að hlusta á þá syngja. Svo er bónus að þeir eru líka talsvert skemmtilegir á milli laga.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.