Slökkvilið Skagastrandar breyttist úr áhugamannaliði í hlutastarfandi

Frá æfingu Slökkviliðs Skagastrandar. Mynd af Facebooksíðu.
Frá æfingu Slökkviliðs Skagastrandar. Mynd af Facebooksíðu.

„Nú þegar árið 2022 er senn á enda er ekki úr vegi að líta um öxl og fara stuttlega yfir starf slökkviliðs Skagastrandar á árinu,“ segir í færslu Slökkviliðs Skagastrandar á Facebookaíðu þess en liðið samanstendur af fimmtán einstaklingum. Endurnýjun mannskaps hefur átt sér stað á undanförnu ári og fyrsta konan gekk í raðir slökkviliðsmanna.

„Töluverð endurnýjun mannskaps hefur átt sér stað á undanförnu ári, menn hafa hætt sökum aldurs og annarra ástæðna og langar mig að nota þetta tækifæri til að þakka þeim kærlega fyrir sitt starf í þágu liðsins. Sumir hafa verið á útkallsskrá í yfir 40 ár og eiga allir þessir kappar hrós skilið. Einnig er vert að minnast á að fyrsta konan gekk í okkar raðir í langan tíma og verður hún vonandi ekki sú síðasta.

Breytingar hafa orðið á þeirri línu sem minni slökkvilið eiga að starfa eftir. Það sem áður voru svokölluð áhugamannalið eru nú í dag slökkvilið með hlutastarfandi mannskap og skal helst eitt yfir alla ganga hvað varðar æfingar, menntun og líkamlegt heilbrigði. Því hefur verið tekið þétt á málunum hvað þetta varðar og nú í vetur útskrifuðust t.d 5 einstaklingar úr 120 klst námi sem hlutastarfandi slökkviliðsmenn. Auk þess var nokkuð um að menn ættu eftir hluta námskeiða sem reynt var að klára eftir fremsta megni. Einnig sat slökkviliðsstjóri námskeið í Stjórnun slökkviliða, Þjálfunarstjóranámskeið og námskeið sem eldvarnareftirlitsmaður.

Verkefni liðsins hafa verið fjölbreytt á árinu. Ráðist var í að mæla rennsli og þrýsting allra brunahana á Skagaströnd, froðurennibraut, skrúðganga og forvarnaverkefnið Logi og Glóð settu meðal annars svip sinn á árið ásamt mörgu fleira,“ segir í færslunni en í lokin er fólk hvatt til að fara varlega með eld og flugelda.

„Að lokum langar mig að minna á eldurinn getur verið bæði blessun og böl, farið því varlega um áramótin og munum að nota hlífðargleraugu og hanska við meðhöndlun flugelda. Slökkvilið Skagastrandar óskar öllum gleðilegra jóla og farsæls nýs árs.“

Myndir frá starfsemi Slökkviliðsins og fylgdu áramótapistli þess má finna á Facebooksíðu HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir