Slökkvilið Fjallabyggðar ekki búið nauðsynlegum tækjum ef illa fer í Strákagöngum
Um miðjan september sagði Feykir.is frá því að Strákagöng yrðu lokuð vegna reykæfingar sem Slökkvilið Fjallabyggðar framkvæmdi í göngunum.
Jóhann K. Jóhannsson, slökkviliðsstjóri Fjallabyggðar gerði samantekt eftir æfingu og er niðurstaðan sú að slökkviliðið sé ekki í stakk búið til þess að takast á við eld, mikinn reyk eða mengunar- og/eða eiturefnaslys í jarðgöngum fjarri gangnaendum.
Í samtali við visir.is segir Jóhann að slökkviliðið hafi fengið fjármagn frá Vegagerðinni til kaupa á búnaði árin 2010 og 2011 þegar Héðinsfjarðargöng hafi verið opnuð. Vegagerðin hafi fram að því ekkert lagt til þegar fyrri göng voru byggð, Strákagöng árið 1967 og Múlagöng árið 1995.
„En bílarnir sem keyptir voru þegar Héðinsfjarðargöng voru opnuð, voru gamall flugvallarslökkvibíll með tíu þúsund lítra af vatni og svo vörubíll sem var breytt í tankbíl. Þessir bílar eru í dag bara orðnir 35 til 40 ára gamlir. Þeir eru góðir til síns brúks en þeir hafa ekkert erindi inn í jarðgöng ef eitthvað kemur upp.“
Það mætti því segja að tækjabúnaður Slökkviliðsins ætti hreinlega heima á Samgöngusafninu í Stóragerði, Skagafirði því þau nýtast ekki eins og þau ættu að gera við þessar aðstæður.
Ábendingar og samantekt slökkviliðsstjóra úr skýrslunni má lesa hér fyrir neðan:
Tækjabúnaður og tæki
Ljóst er að lyfta þarf grettistaki í því að búa svo um að Slökkvilið Fjallabyggðar hafi þau tæki og búnað til
þess að takast á við atburði í jarðgöngum. Í 10 gr. reglugerðar um brunavarnir í samgöngumannvirkjum
nr. 614/2004 segir um sérstakar ráðstafanir; „Slökkviliðsstjóri getur, að höfðu samráði við eiganda og
sveitarstjórn, lagt svo fyrir að í samgöngumannvirkjum séu gerðar sérstakar ráðstafanir til brunavarna,
t.d. með uppsetningu á sérhæfðum búnaði til viðvörunar- og slökkvistarfs og þjálfun tiltekinna
starfsmanna í brunavörnum og slökkvistarfi. Slíkar ráðstafanir skulu koma fram í brunavarnaáætlun
sveitarfélagsins. Eigandi samgöngumannvirkis greiðir kostnað af slíkum ráðstöfunum.“
Slökkviliðsstjóri hefur þegar opnað á samtal um þetta við sveitarfélagið og eiganda
samgöngumannvirkjanna á svæðinu. Enn sem komið er hefur það ekki skilað neinu. Samkvæmt
brunavarnaáætlun sveitarfélagsins, sem gefin var út í desember síðast liðnum, eru jarðgöng í áhættuflokki
5 sem eru utan getu slökkviliðsins að ráða við. Með betri búnaði, sem ætlaður væri til að takast á við
viðbragð í jarðgöngum væri mögulega hægt að lækka áhættuflokkinn niður í 4 sem er innan getu
slökkviliðs að ráða við.
Aðkoma að göngum
Eins og greint var frá fyrr í skýrslunni varð það óhapp að slökkvibifreið var ekið á lokunarslá við Strákagöng.
Ökumaður kvaðst hreinlega ekki hafa séð slánna. Aðrir ökumenn slökkvibíla tóku í sama streng og sögðu
slánna sjást illa þrátt fyrir að á henni séu ljós.
Virkni ljósa a slánni er þannig að þegar sláin er uppi loga ljósin græn en þegar sláin fer niður verða ljósin
rauð. Eins og sjá má á mynd hér að ofan er sláin niðri og ljósin rauð. Slökkviliðsstjóri telur að bæta mætti
endurskinsmerkingar á milli ljósa. Til dæmis með Battenburg endurskinsmerkingum. Samskonar
merkingar eru á tækjum viðbragðsaðila í dag.
Öryggissvæði við göngin
Í ljós kom á æfingunni að öryggissvæði við Strákagöng, Siglufjarðarmegin, er helst til of lítið þegar stórir
bílar koma á vettvang. Enginn möguleiki er fyrir stór ökutæki að snúa við á veginum sjálfum.
Tæknirými
Skoða þarf möguleika á því að færa tæknirými út fyrir göngin. Æfingin leiddi það í ljós að fyllist göngin af
reyk er ekki hægt að komast með auðveldum hætti að tæknirýminu. Rými sjálft fylltist fljótt af reyk.
Fjarskiptasamband í göngunum
Tetra fjarskiptasamband er tæpt við gangamunna Siglufjarðarmegin og ekkert inni í göngunum. Ef tvö
slökkvilið væru að vinna við sinn hvort gangnaendann gætu þau ekki verið í fjarskiptasambandi. Áríðandi
er að úr því verði bætt sem og að farsímasamband og útvarpssendingar verði sett í Strákagöng.
Viðbragðsáætlun
Strákagöng voru opnuð fyrir umferð í nóvember 1967. Í allan þann tíma hefur aldrei verið gerð
viðbragðsáætlun fyrir göngin þrátt fyrir ábendingar þar um. Afar áríðandi er að hún verði gerð og gefin út.
Æfingar
Líkt og fram kemur í öðrum viðbragðsáætlunum fyrir jarðgöng er lagt fyrir að slökkvilið æfi árlega
viðbragð. Áríðandi er að Vegagerðin geri ráð fyrir því í rekstri ganganna.
Alla skýrsluna má lesa hér
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.