Skíðasamband Íslands heiðrar fimm aðila innan Skíðadeildar Umf. Tindastóls
Á þingi Skíðasambands Íslands sem haldið var á Króknum í gær, föstudaginn 20. október, voru fimm einstaklingar sem hafa unnið óeigingjarnt sjálfboðaliðastarf fyrir hönd Skíðadeildar Umf. Tindastóls heiðraðir fyrir sitt framlag til deildarinnar. Þeir voru; Sigurður Bjarni Rafnsson, Magnús Hafsteinn Hinriksson, Helga Daníelsdóttir, Hildur Haraldsdóttir og Sigurður Hauksson.
Á vef Skíðasambands Íslands segir að Sigurður Bjarni Rafnsson hafi hlotið Gull heiðursviðurkenningu og sé starfandi formaður deildarinnar og hafi verið síðan 2008. Þá hefur Sigurður komið að þjálfun og verið mjög virkur í allri starfsemi deildarinnar og verið duglegur að tala fyrir og ýta á eftir allri uppbyggingu sem hefur átt sér stað í Tindastól. Sigurður á stóran þátt í því að efri lyftan og töfra teppið og síðast en ekki síst að skíðaskálinn hafi verið byggður og að bundið slitlag hafi verið lagt á veginn upp eftir í formannstíð hans.
Magnús Hafsteinn Hinriksson hlaut silfur heiðursviðurkenningu og á vefnum segir að hann sé einfaldlega maðurinn sem kann ekki að segja nei og er ávallt boðinn og búinn til að bjarga hlutunum. Magnús hefur aðstoðað Tindastól á svo margan hátt, komið að þjálfun og verið virkur í öllu starfi. Magnús var einn af þeim mönnum sem komu að því að reisa lyfturnar í Tindastól og að sjálfsöðu allt gert í sjálfboðavinnu.
Helga Daníelsdóttir hlaut silfur heiðursviðurkenningu og hefur verið í stjórn Skíðadeildar Tindastóls frá árinu 2012, lengst af sem gjaldkeri. Helga hefur stjórnað foreldrafélaginu og verið með skíðaþjálfun og skíðakennslu á sínum herðum undanfarin ár. Helga er ein af þeim sem er alltaf fyrst til að bjóða sig fram ef það þarf að vinna einhver verkefni. Hún er alltaf tilbúin að aðstoða, leiðbeina eða bara gera hvað sem er. Það er algjörlega ómetanlegt að hafa eina Helgu sem leggur sig alltaf 100% fram í þeim störfum sem hún hefur tekið sér fyrir hendur fyrir skíðahreyfinguna undanfarin ár.
Hildur Haraldsdóttir hlaut einnig silfur heiðursviðurkennigu því hún hefur verið í stjórn skíðadeild Tindastóls í mörg ár og lengst af sem ritari. Hildur er ósérhlífin og ein af þeim sem er boðin og búin til að leggja mikið á sig til að láta hlutina ganga upp. Hún hefur verið í lykilhlutverki í unglinga og foreldraráði undafarin ár og haldið vel utanum starfið. Hildur er einnig þessi sem gengur í hvaða verk sem er og tók einmitt að sér að vera þingritari á þessu þingi.
Síðast en ekki síst þá er það Sigurður Hauksson sem hlaut silfur heiðursviðurkenningu en hann var einn af okkar bestu skíðamönnum landsins fyrir nokkrum árum. Nú er Sigurður hins vegar einn af okkar bestu troðaramönnum landsins og að eigin sögn einnig skemmtilegasti og myndarlegasti staðahaldari í Evrópu! Sigurður á stóran þátt í að gjörbreyta og bæta aðstöðu Skíðadeildar Tindastól og hefur komið að því að hanna nýjar skíðaleiðir. Sigurður er umsjónarmaður nýja skíðaskálans og sér um að koma honum upp og frágangi á honum. Sigurður brennur fyrir að stórauka og betrumbæta alla aðstöðu fyrir skíða- og brettaiðkendur. Hann hefur verið staðarhaldari og þjálfari undanfarin ár fyrir Skíðadeild Umf. Tindastóls og hefur einnig setið í stjórn hjá fleiri skíðasvæðum á Íslandi.
Feykir óskar þessu flotta fólki til hamingju með viðurkenningarnar og hlakkar til að fylgjast með komandi vetri sem vonandi skilar iðkendum deildarinnar og skíðafólki nær og fjær góðum skíðavetri.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.