Skagaströnd fékk flest stig á félagssvæði Kjalar
Kjölur stéttarfélag stóð ásamt níu öðrum bæjarstarfsmannafélögum að gerð könnunarinnar Sveitarfélag ársins síðastliðið vor en spurningar í könnuninni voru lagðar fyrir félagsfólk stéttarfélaganna í strörfum hjá sveitarfélögum. Könnunin var gerð í samstarfi við Gallup og byggð upp með hliðstæðum hætti og útnefningar fyrirtækis ársins og stofnunar ársins byggja á. Á starfssvæði Kjalar ríkti mest ánægja meðal starfsmanna Skagastrandar en minnst í Skagafirði.
Raunar komust aðeins 15 sveitarfélög á lista en samkvæmt þátttökuskilyrðum könnunarinnar þurfti svarhlutfall að vera að lágmarki 35% af útsendum spurningalistum til að sveitarfélag næði inn á stigalista. Auk þess þurftu tíu svör að lágmarki að berast frá félagsmönnum sem eru starfandi í sveitarfélaginu.
Þeir níu þættir sem könnunin náði til voru stjórnun, starfsandi, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleiki vinnu, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar, ánægja og stolt og jafnfrétti. Sveitarfélögin á félagssvæði Kjalar stéttarfélags raðast þannig að Skagaströnd varð í 7. sæti með 4.037 stig, þá kom Akureyrarbæjar í 8. sæti og Dalvíkurbyggð í 9. sæti. Ísafjarðarbær varð í 11. sæti og Borgarbyggð í 12. sæti. Loks varð Skagafjörður í 14. sæti með 3.758 stig. Stigafjöldi í könnuninni var að meðaltali 3.982.
Í frétt á vef Skagastrandar er bent á að Skagaströnd var eina sveitarfélagið af þessum sex sem var yfir meðaltali í heildareinkunn. Hæsta einkunn fékk sveitarfélagið hjá starfsmönnum sínum fyrir sveigjanleika í starfi og var það raunar hæsta einkunnin í þeim flokki hjá öllum sveitarfélögunum.
„Almennt má segja að þessi frumraun í gerð könnunarinnar Sveitarfélag ársins sýni jákvætt viðhorf félagsfólks í störfum hjá sveitarfélögunum. Áberandi óánægja er þó með launin og er áhugavert að sjá hversu miklu munar á mati starfsfólks sveitarfélaganna á launakjörum og þeirra sem starfa á almennum markaði. Þá er áberandi hve illa leikskólarnir koma út í mati á launakjörum miðað við aðra starfsemi,“ segir í lokaorðum skýrslunnar þar sem niðurstaða könnunarinnar er kynnt en skýrsluna má sjá hér >
Grímsnes- og Grafningshreppur fékk flest stig í könnuninni, eða 4346 stig, og telst því Sveitarfélag ársins. Útnefning sveitarfélags ársins verður hér eftir árleg.
Heimild: Skagaströnd.is og Sveitarfelagarsins.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.