Sjálfstæðis- og Framsóknarmenn ræða meirihlutasamstarf á Norðurlandi vestra

Hrund Pétursdóttir nýkjörin sveitarstjóornarfulltrúi Framsóknar í Skagafirði á kjörstað sl. laugardag. Mynd: PF.
Hrund Pétursdóttir nýkjörin sveitarstjóornarfulltrúi Framsóknar í Skagafirði á kjörstað sl. laugardag. Mynd: PF.

Samningaviðræður um meirihlutasamstarf ganga vel í sveitarfélögunum þremur á Norðurlandi vestra þar sem á annað borð þarf að mynda meirihluta. Þar eru í öllum tilfellum Framsóknarflokkur og Sjálfstæðismenn sem ræða samstarf auk óháðra þar sem það á við.

Frá því var sagt í gær að formlegar viðræður stæðu yfir milli D-lista, Sjálfstæðismanna og óháðra og B-lista Framsóknar og annarra framfarasinna í sameinuðu sveitarfélagi Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps.

Sveitarstjórnarfulltrúar D-lista eru þau Guðmundur Haukur Jakobsson, Ragnhildur Haraldsdóttir, Zophonías Ari Lárusson og Birgir Þór Haraldsson en á B-lista Auðunn Steinn Sigurðsson, Elín Aradóttir og Grímur Rúnar Lárusson. Í sveitarstjórn voru einnig kosin þau Edda Brynleifsdóttir á G -lista og Jón Gíslason H-lista.

Þorleifur Karl Eggertsson oddviti B-lista Framsóknar og annarra framfarasinna í Húnaþingi vestra segir viðræður eiga sér stað við D-lista Sjálfstæðismanna og óháðra, sem gangi vel. Segir hann þær ættu að klárast á næstu dögum. Með Þorleifi í sveitarstjórn eru Friðrik Már Sigurðsson og Elín Lilja Gunnarsdóttir en á D-lista sr. Magnús Magnússon og Sigríður Ólafsdóttir. Auk þeirra náðu þau Magnús V. Eðvaldsson og Þorgrímur Guðni Björnsson N-lista Nýs afls í Húnaþingi vestra kosningu í nýja sveitarstjórn.

Hugsanlega gæti eitthvað breyst því kjörstjórn Húnaþings vestra kom saman í gær í tilefni af erindi N-listans þar sem farið er fram á endurtalningu atkvæða vegna þess hve litlu munaði á atkvæðafjölda á sjöunda manni inn í sveitarstjórn í sveitarstjórnarkosningum. Ákveðið var að telja á ný og er búist við því að niðurstöður liggi fyrir um kl. 11:00 í kvöld.

Í Skagafirði hélt fráfarandi meirihluti B-lista Framsóknarflokks og D-lista Sjálfstæðisflokks og segir Einar E Einarsson fulltrúa þeirra funda um áframhaldandi samstarf. Segir hann allt gott af viðræðum að frétta og verði nokkrir dagar teknir í það í viðbót.

Auk Einars eru Hrund Pétursdóttir og Hrefna Jóhannesdóttir fulltrúar Framsóknar í sveitarstjórn og hjá Sjálfstæðismönnum þau Gísli Sigurðsson og Sólborg S. Borgarsdóttir.

L-listi Byggðalistans náði góðri kosningu og er næst stærsti flokkur Skagafjarðar í sveitarstjórn með jafn marga fulltrúa og Sjálfstæðismenn en þar sitja Jóhanna Ey Harðardóttir og Sveinn Úlfarsson í efstu sætum. Hjá V-lista VG og óháðum voru einnig tveir fulltrúar kosnir í sveitarstjórn Álfhildur Leifsdóttir og Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir.

Þykir það tíðindum sæta að sex af níu kjörnum fulltrúum eru konur en þær voru fjórar á nýloknu tímabili. Á Skagaströnd er einnig mikið kvennaval þar sem konurnar eru fjórar í sveitarstjórn og einn karl. Sjálfkjörið var í sveitarstjórn en þar sitja fulltrúar H – lista, Skagastrandarlistans Halldór Gunnar Ólafsson, Erla María Lárusdóttir, Hrefna Dögg Þorsteinsdóttir, Guðbjörg Eva Guðbjartsdóttir og Péturína Laufey Jakobsdóttir.

Eins og staðan er núna er kynjahlutfallið jafnt í sveitarstjórnum fjögurra stærstu sveitarfélaganna þar sem 15 konur og 15 karlar voru kjörnir en hlutfallið 18 karlar og 17 konur þegar Skagabyggð er sett í mengið. Þar fengu flest atkvæði í óbundinni kosningu þau Magnús Jóhann Björnsson, Kristján S. Kristjánsson, Vignir Ásmundur Sveinsson, Bjarney Ragnhildur Sveinsdóttir og Erla Jónsdóttir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir