Sigurður Ingi hefur tekið á móti nýrri Samgöngu- og innviðaáætlun Norðurlands vestra
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, hefur veitt nýrri Samgöngu- og innviðaáætlun Norðurlands vestra viðtöku. Í frétt á vef SSNV segir að í áætluninni séu teknar saman helstu áherslur landshlutans hvað samgöngu- og innviðamál varðar og er áætlunin uppfærð útgáfa fyrri áætlunar sem samþykkt var árið 2019.
Auk samgöngumála er í áætluninni fjallað um fjarskiptamál, hitaveitur og raforkukerfi. Eru brýnustu verkefni sett fram í forgangsröð í hverjum málaflokki fyrir sig. Með áætluninni vilja sveitarfélög á Norðurlandi vestra leggja sitt af mörkum til að auðvelda og flýta fyrir töku ákvarðana og þar með brýnum framkvæmdum við samgöngu- og innviðauppbyggingu í landshlutanum.
Samgöngu- og innviðanefnd SSNV hafði umsjón með vinnu við gerð áætlunarinnar en hana skipuðu fulltrúar allra sveitarfélaga í landshlutanum en auk þess starfaði Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri SSNV, með nefndinni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.