Sigur í fyrsta heimaleik í Subway deild karla
Fyrsti heimaleikur Tindastóls í Subway deild karla, annarri umferð, fór fram á laugardaginn var. Tindastóll tók á móti Keflvíkingum, sem byrjuðu betur og fyrir þeim fór Jaka Brodnik fyrrum leikmaður Tindastól og var sóknarleikur Keflvíkinga betri en hjá heimamönnum leiddu þeir fyrsta leikhluta. Tindastólsmenn virtust eiga erfitt með að finna taktinn í sóknarleiknum í upphafi leiks. Kannski hafði það eitthvað að gera með að Pétur Rúnar sat meiddur á bekknum. Keflvíkingar voru sterkari í upphafi annars leikhluta og Tindastóll náði að halda sér inni í leiknum með þriggja stiga körfum.
Svo gerðist það sem áhorfendur var aðeins farið að lengja eftir, vörnin small í gír og boltinn hélt áfram að rata í körfuna, leikurinn snérist Stólunum í hag og þeir leiddu leikinn í hálfleik 47-40. Keflvíkingar hófu seinni hálfleikinn eins og þeir byrjuðu leikinn og komust yfir 60-64, þegar Pavel tekur leikhlé. Þá verða aftur vendingar í leiknum og Þórir Þorbjarnarson og Callum Lawson settu hverja körfuna á eftir annarri og í lok þriðja leikhluta var staðan orðin 75-69. Íslandsmeistararnir gáfu svo ekkert eftir í fjórða leikhluta og juku muninn og leikurinn endaði með sigri heimamanna, lokatölur í leiknum 105-88.
Þórir Þorbjarnarson, sem réttast er að kalla Tóta túrbó, leysti Pétur Rúnar af og gerði það með miklum sóma, skilaði 28 stigum, var með 12 fráköst og 11 stoðsendingar, svo einhver sé nefndur, en það er ekki hægt að sleppa því að minnast á þátt Orra, sem kom inná og skilaði sínu sem var extra gaman að sjá. Aldrei að hika Orri, þú áttir að skjóta. Frábær leikur og verðkuldaður sigur heimamanna. Næsti leikur hjá okkar mönnum í Tindastól verður svo í Grindavík föstudaginn 20.október klukkan 20:15.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.