Rjúpnaveiðimenn hvattir til að sýna hófsemi

Mynd: Ust.is/Ólafur K. Nielsen.
Mynd: Ust.is/Ólafur K. Nielsen.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur staðfest tillögur Umhverfisstofnunar að fyrirkomulagi rjúpnaveiða ársins 2022 þar sem veiðitímabil stendur yfir í 24 daga, frá 1. nóvember - 4. desember í ár. Heimilt verður að veiða rjúpu frá föstudegi til þriðjudags, frá kl. 12 þá daga sem veiði er heimil og skal veiði eingöngu standa yfir á meðan að birtu nýtur.

Tillögur Umhverfisstofnunar voru lagðar fram að undangengnu samráðsferli við Náttúrufræðistofnun Íslands, Fuglavernd og Skotveiðifélag Íslands. Umhverfisstofnun leggur sem fyrr ríka áherslu á að hvetja veiðimenn til hófsamra veiða með hliðsjón af ástandi rjúpnastofnsins og hvetur veiðimenn til að veiða ekki umfram sex fugla á mann á veiðitímabilinu og biðlar sérstaklega til veiðimanna á Norðausturlandi að sýna hófsemi í veiðum á því svæði. „Mikilvægt er að allir hagsmunaaðilar komi að því hvatningarátaki,“ segir í greinargerð til umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins.

Á heimasíðu Umhverfisstofnunar kemur fram að við gerð tillagnanna hafi mat Náttúrufræðistofnunar Íslands á veiðiþoli rjúpnastofnsins fyrir árið 2022 verið lagt til grundvallar. Í því mati kemur m.a. fram að stofninn telji um 297.000 rjúpur og leggur stofnunin áherslu á að afli verði ekki umfram sex fugla á mann eða 8,8% af veiðistofni eða 26 þúsund fuglar.

Á vef Stjórnarráðs Íslands er ítrekað að sölubann er á rjúpum og á það jafnt við um sölu til endursöluaðila og annarra. Þar kemur fram að stærð rjúpnastofnsins hafi dregist saman síðustu ár og því biðlar ráðherra til veiðimanna að sýna hófsemi í veiðum í ljósi viðkomubrests á Norðausturlandi og Vesturlandi, en slæmt tíðarfar í vor og sumar er líklegasta skýringin á viðkomubrestinum. Þá hvetur ráðherra veiðimenn til þess að flykkjast ekki á Norðausturlandið til veiða og eru veiðimenn á því svæði hvattir sérstaklega til að sýna hófsemi.

„Ég hef lagt áherslu á að Umhverfisstofnun setji í forgang að hraða vinnu við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir rjúpuna og að á grundvelli hennar verði fyrirkomulag veiða í framtíðinni ákveðið,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir