Prjónagleðin framundan

Kæru prjónarar, ferðaþjónustuaðilar og hugmyndaríku íbúar á Norðurlandi vestra. Helgina 10. - 12. júní nk. stendur fyrir dyrum viðburður á Blönduósi, haldinn af Textílmiðstöð Íslands sem heitir Prjónagleði. Prjónagleðin er hátíð sem hefur ansi áhugaverðan og litríkan markhóp og má kannski kalla hana uppskeruhátíð prjónanördanna.

En það sem er skemmtilegt við þennan markhóp er að hann er mjög vel afmarkaður og aðgengilegur, fylgir sínu áhugamáli fast eftir og er stærri en nokkurn grunar.
Prjónagleðin á Blönduósi er að festa sig í sessi sem ómissandi viðburður prjónafólks um allt land og því fögnum við á Textílmiðstöðinni. Viðburðir sem þessi hefur margvísleg áhrif á nærsamfélagið, undirbúningnum fylgir stemning og gleði, gistinóttum fjölgar, veitingastaðir eru fullbókaðir og það er líf í bænum. Viðburður sem þessi skapar fullt af tækifærum fyrir heimafólk til þess að koma sér og sínu á framfæri, hrinda hugmyndum í framkvæmd og bjóða upp á eitthvað skemmtilegt og laða að viðskipti.

Það munar um gesti Prjónagleðinnar og þeir njóta þess að eiga góðar og skemmtilegar prjónastundir hér í okkar samfélagi. 
Við ætlum að halda líflega og áhugaverða Prjónagleði 10. - 12. júní nk. og leitum því að samstarfsaðilum á Norðurlandi vestra til þess að glæða hátíðina lífi og spennandi afþreyingu. 
Viðburðum, sýningum, kynningum, þjónustu, tilboðum og afsláttum og hverju því sem fólki og fyrirtækjum dettur í hug og lífgar upp á helgina er tekið fagnandi.

Markmiðið er að taka hlýlega og skemmtilega á móti gestum Prjónagleðinnar og búa til umgjörð fyrir góðar minningar um heimsókn á Blönduós og Norðurland vestra.

Nánari upplýsingar og aðstoð veitir undirrituð.
Svanhildur Pálsdóttir viðburðastjóri hjá Textílmiðstöð Íslands, svana@textilmidstod.is eða í síma 8462582.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir