Norðan stormur og talverð slydda eða snjókoma – Minnir á desemberhvellinn 2019

Það ættu allir að taka viðvörun sunnudagsins alvarlega og vera ekki á ferðinni að nauðsynjalausu.
Það ættu allir að taka viðvörun sunnudagsins alvarlega og vera ekki á ferðinni að nauðsynjalausu.

Það er skammt stórra högga á milli hjá lægðum haustsins en spáð er miklum norðanhvelli snemma á sunnudagsmorgun svo allir landshlutar eru ýmist litaðir gulum eða appelsínugulum viðvörunum en allt frá Ströndum að Glettingi á Austurlandi, ásamt miðhálendi er appelsínugult ástand, annað gult. Á Ströndum og Norðurlandi vestra tekur viðvörunin gildi kl 8 á sunnudagsmorgun og linnir ekki fyrr en upp úr klukkan tvö aðfararnótt mánudags.

Veðurstofan spáir norðan stormi á Norðurlandi vestra 18-23 m/s með talsverðri úrkomu, slyddu við ströndina, annars snjókomu.
„Miklar líkur eru á slydduísingu á innviði og vegi. Fólki er bent á að ganga vel frá utandyra og koma búfénaði í skjól. Miklar líkur á að færð spillist og ekkert ferðaveður á meðan viðvörunin er í gildi,“ segir á vef Veðurstofunnar

Samkvæmt heimildum Feykis minnir þetta talsvert á veðrið í desember 2019 þó ekki eigi að vara alveg jafn hvasst. 
„Það verður stórstreymt auk einhvers áhlaðanda og svo 20-30cm hækkun þar ofan á vegna lægðarinnar. Loftþrýstingur fer vonandi ekki mikið niður fyrir 980mb hjá okkur. Við verðum því að vera viðbúin því að sjór gangi á land eða flæði upp úr niðurföllum hér á hafnarsvæðinu og hver að huga að því sem hægt er og undirbúa.

Ef sjór gengur á land má reikna með lokun við hringtorgið norðan sláturhúss. En vonandi stendur varnargarðurinn sig og útrásin þar,“ segir í tilkynningu frá Pálma Jónssyni, yfirhafnarverði Skagafjarðarhafna. Þar eru smábátaeigendur jafnframt hvattir til að huga að landfestu á bátum sínum. Ef að líkum lætur verða aðstæður verstar á milli kl 21 og 23 á sunnudagskvöldið og háflóð um klukkan tíu um kvöldið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir