Nafn óskast á nýjan grunnskóla Húnabyggðar
Á Facebooksíðunni Grunnskóli Húnabyggðar er því velt upp að bráðnauðsynlegt sé að nafn komi á nýjan grunnskóla sem fyrst en hann varð til með sameiningu Blönduskóla og Húnavallaskóla með nýju sveitarfélagi Húnabyggðar í vor. Eins og er gengur skólinn undir vinnuheitinu Grunnskóli Húnabyggðar enda eini grunnskóli Húnabyggðar. Fram kemur að á fyrsta fundi skólaráðs nú í lok september hafi verið ákveðið vinnuferli varðandi nafngiftina og mun það vera fyrst á dagskrá að kalla eftir tillögum.
„Verkefnið verður kynnt í öllum námshópum skólans, starfsfólk og foreldrar fá póst um verkefnið og frétt sett á Húnahornið og á Facebook. Hugmyndum skal skila inn með tölvupósti á netfangið blonduskoli@blonduskoli.is og skal pósturinn heita „Nafn á skólann“, en einnig er hægt að koma í skólann og setja miða með tillögu að nafni í þar til gerðan kassa sem er hjá ritara sem er staðsettur í Nýja skóla. Loka skil á nafnahugmyndum er föstudaginn 14. október. Þá fer skólaráð yfir tillögurnar og velur nokkur nöfn úr,“ segir í færslu skólans en kosning um þau nöfn sem koma helst til greina verður síðan í framhaldinu.
Jafnframt kemur fram að kosningin verði bæði rafræn þ.e. þeir sem tengjast skólanum með netföngum hafa möguleika á að kjósa þannig en aðrir sem vilja kjósa geta gert það með því að skila miða með einu af þeim nöfnum sem til greina koma og skila í þar til gerðan kassa hjá ritara. Kosningu mun svo ljúka um næstu mánaðamót og verður nánar auglýst síðar. Tillögu að nýju nafni á skólann verður síðan lögð fyrir sveitarstjórn til samþykktar í byrjun nóvember.
„Vonandi eru margir sem hafa áhuga á þessu verkefni og eru tilbúnir að leggjast í smá hugmyndavinnu. Viljum við hafa nafnið stutt? Viljum við hafa nafnið lýsandi? Viljum við að nafnið tengist staðháttum? Viljum við að nafnið tengist sögu svæðisins? Eða viljum við eitthvað allt annað? Við hvetjum alla til að vera með og senda inn sínar hugmyndir,“ segir í tilkynningu skólans.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.