Mjög alvarlegt umferðarslys sunnan Blönduóss

Af vettvangi slyssins. SKJÁSKOT ÚR FRÉTT Á VEF RÚV
Af vettvangi slyssins. SKJÁSKOT ÚR FRÉTT Á VEF RÚV

Mbl.is greinir frá því að þyrla land­helg­is­gæsl­unn­ar og all­ir til­tæk­ir viðbragðsaðilar hafi verið kallaðir út upp úr klukk­an fimm í morg­un þegar til­kynnt var um mjög al­var­legt um­ferðarslys á þjóðveg­in­um rétt sunn­an við Blönduós en rúta með á þriðja tug farþega hafði farið út af veginum. Í frétt frá því skömmu fyrir sjö í morgun er sagt að þyrlan hafi flutt þrjá slasaða farþega suður.

Þá kemur fram að þyrlan hafi lent rétt fyrir klukkan sjö á Blönduósi. Ekki var reiknað með að hún færi aftur norður. Upplýsingar um tildrög slyssins eða meiðsl á fólki liggja ekki fyrir en slysið er sem fyrr segir talið mjög alvarlegt.

Allt til­tækt lið sjúkra­flutn­inga­manna og slökkviliðsmanna á Blönduósi, Hvammstanga, Sauðár­króki og Búðar­dal var kallað út ásamt tækja­bíl­um sem eru fyr­ir hendi á svæðinu auk liðsauka frá björg­un­ar­sveit­um.

UPPFÆRT kl. 9:10

Mbl.is greinir frá því að auk þeirra þriggja sem fluttir voru með þyrlu frá Blönduósi séu nokkrir hinna slösuðu fluttir með sjúkraflugi frá Akureyri til Reykjavíkur. Sjúkrahúsið á Akureyri mun einnig taka við nokkrum slösuðum sem fluttir hafa verið með sjúkrabílum af slysstað. Haft er eftir Hjördísi Guðmundsdóttur að nú ríði á að koma fólkinu undir læknishendur.

Þjóðvegurinn hefur verið lokaður fyrir umferð stórra bíla en öðrum er stýrt í gegn.

UPPFÆRT kl. 10:40

Vísir og mbl.is segja frá því að rútan sem valt í morgun hafi verið frá SBA Norðurleiðum og hafi verið að flytja 23 starfsmenn á vegum Akureyrarbæjar frá Keflavíkurflugvelli heim til Akureyrar. 

Í samtali Vísis við Steinar Gunnarsson hjá Lögreglunni á Norðurlandi vestra segir hann of snemmt að segja til um á þessari stundu hvað olli slysinu. Hann segir engan hafa látist í slysinu og þá viti hann ekki til þess að nokkur sé í lífshættu. „Aðgerðir á vettvangi hafa gengið vel og greiðlega. Þyrlan kom þarna og flutti þrjá suður í Fossvoginn. Svo voru aðrir fluttir með sjúkraflugi frá Blönduósi. Aðgerðir hafa gengið vel og það komu bjargir úr öllum áttum,“ segir Steinar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir