Minna á mikilvægi þess að lagt verði bundið slitlag á Blönduósflugvöll
Á fundi sveitarstjórnar Húnabyggðar í gær lagði sveitarstjórn áherslu á, í kjölfar alvarlegra umferðarslysa á þjóðvegi 1 á liðnu sumri, að gríðarlega mikilvægt sé að þau áform sem koma fram í drögum að samgönguáætlun, um lagningu bundins slitlags á Blönduósflugvöll, nái fram að ganga.
„Mikil umferð um þjóðveg 1 kallar á að viðbúnaður sé til staðar til að bregðast við slysum. Blönduósflugvöllur er eini flugvöllurinn á svæðinu milli fjallveganna um Holtavörðuheiði og Þverárfjall/Vatnsskarð og gegnir því mikilvægu hlutverki sem sjúkraflugvöllur þegar hver mínúta skiptir máli fyrir slasaða eða sjúka einstaklinga. Bundið slitlag og traust undirlag er forsenda þess að flugvöllurinn sé nothæfur þegar á þarf að halda og að öryggi flugáhafna og farþega sé tryggt sbr. niðurstöður og tillögur starfshóps um öryggi flugvalla og lendingarstaða frá nóvember 2021,“ segir í fundargerðinni.
Í síðustu viku valt rúta á þjóðvegi 1 skammt sunnan Blönduóss en þá flutti þyrla þrjá slasaða suður en fjórir voru fluttir með sjúkraflugi frá Akureyri eftir að hafa verið fluttir þangað með sjúkrabíl.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.