Mikill samhljómur hjá D- og B- lista í sameinuðu sveitarfélagi Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps
Kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og óháðra og Framsóknar og annarra framfarasinna í sameinuðu sveitarfélagi Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps vinna nú að myndun meirihluta í nýja sveitarfélaginu. Guðmundur Haukur Jakobsson, oddviti D lista, segir óhætt að greina frá því að mikill samhljómur hafi verið með áherslum í öllum helstu málum og góður grundvöllur sé fyrir því að vinna málið áfram.
„Að sjálfsögðu þarf að fara bil beggja í einhverjum málum eins og gefur að skilja en það eru ekki stórir ásteytingasteinar. Þetta leggst bara vel í okkur,“ segir Guðmundur Haukur.
Næsti fundur verður haldinn fljótlega, en unnið er að því að samþætta áherslur og fara yfir skiptingar í nefndir og ráð.
„Meðal þeirra málefna sem flokkarnir eru sammála um að leggja áherslu á er farsæld barna og barnafjölskyldna, fólks í viðkvæmri stöðu ásamt málefnum eldra fólks. Auk þess voru aðilar sammála um að leggja áherslu á umhverfismál, mannréttindi og velferð íbúa, öflugt skólastarf sem og metnaðarfull og fagleg skipulagsmál. Samanlagt geta þessir flokkar myndað sjö fulltrúa meirihluta í sveitarstjórn, þar sem níu fulltrúar eiga sæti.“
Í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum hlutu Sjálfstæðisflokkur og óháðir fjóra fulltrúa og Framsókn og aðrir framfarasinnar þrjá, H og G listi fengu svo sinn fulltrúann hvort framboð.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.