Kærleiksstund á íþróttavellinum á Blönduósi í kvöld
„Við viljum koma saman og eiga fallega samverustund á íþróttavellinum á Blönduósi þar sem við kveikjum á friðarkertum,“ segir í tilkynningu sveitarstjórnar Húnabyggðar en þar verða í ljósaskiptunum lögð friðarkerti á hlaupabrautina allan hringinn og þannig sýndur samhugur og hluttekning til þeirra sem eiga um sárt að binda.
Stefnt er á að hittast við nýja vallarhúsið á íþróttavellinum kl. 21:00 í kvöld og eru allir sem vilja senda góða strauma og hlýju beðnir að mæta og taka þátt í athöfninni en friðarkertin verða á staðnum.
Slökkviliðsmenn Brunavarna Austur-Húnvetninga hittust í gærkvöldi til að sýna Kára Kárasyni, liðsmanni þeirra og vini, samúð og samstöðu ásamt fjölskyldu hans og öllum þeim sem eiga um sárt að binda. „Ekki er hægt að koma í orð öllum þeim tilfinningum sem hafa vaknað hjá okkur öllum vegna þessa hræðilega harmleiks en mynd segir meira en mörg orð,“ segir í færslu á Facebooksíðu Brunavarna Austur-Húnvetninga.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.