JólaFeykir kemur út í dag
Biðin eftir jólablaði Feykis er á enda því hnausþykkur doðrantur er á leiðinni til íbúa Norðurlands vestra í dag og næstu daga. Eins og lög gera ráð fyrir eru fjölmörg viðtöl, uppskriftir, andleg næring og besta myndagáta í heimi, að finna í blaðinu. Fljótlega verður það einni aðgengilegt á Netinu svo enginn ætti að þurfa að fara í jólafeykisköttinn.
Meðal efnis í blaðinu er jólahugvekja nýskipaðs vígslubiskups á Hólum, sr. Gísla Gunnarssonar; viðtal við Silla kokk, sem býr til besta borgarann í Evrópu; Björn Jóhann segir frá Skagfirskum skemmtisögum; Helga Möller svarar Tón-lystinni; kveðskapur frá Rúnari Kristjáns á Skagaströnd; jólalegir gæludýraþættir en einn örlítill dverghamsturshnoðri fær að prýða forsíðuna að þessu sinni; Íris Ösp Sveinbjörnsdóttir, hönnuður og ljósmyndari segir frá sínum hugðarefnum; kökuþáttur sem nú er í höndum Diskódísa í Húnaþingi vestra; vangaveltur um tengsl heimsfrægrar hljómsveitar norður í land; kafli úr bók Sölva Sveinssonar, Eilífð í sjónmáli; Bjarni Gaukur Sigurðsson segir frá uppbyggingu gamla bæjarins á Blönduósi; Einar Kárason, rithöfundur, svarar Bók-haldinu; Stefanía Ósk og Kjartan Erlendsson segja frá handverki sínu; börn í leikskólanum Barnabóli svara jólaspurningum; myndagátan víðfræga á sínum stað; umfjöllun um hátíðarmessu Sauðárkrókskirkju og nokkur smáviðtöl við fólk sem segir frá jólunum sínum.
Að sjálfsögðu eru einnig fjölmargar auglýsingar sem gerir okkur kleift að senda blaðið inn á öll heimili á Norðurlandi vestra.
Nú mega jólin koma fyrir mér! En þér?
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.