Í fjárlögum er gert ráð fyrir auknu fjármagni til riðuvarna

Kindur. MYND: GG
Kindur. MYND: GG

Húnahornið greinir frá því að í nýbirtum fjárlögum 2024 gert ráð fyrir auknu fjármagni, upp á 110 milljónir króna, til innleiðingar verndandi arfgerða gegn riðuveiki. Gert er ráð fyrir að aukningin mæti kostnaði við arfgerðagreiningu til að innleiða megi sem hraðast verndandi arfgerðir í íslenska sauðfjárstofninn. Þetta er í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 28. apríl síðastliðnum, að því er segir á vef Stjórnarráðsins.

Þar segir að í greinargerð Landbúnaðarháskóla Íslands komi fram að hægt sé að innleiða verndandi arfgerðir gagnvart riðusmiti á takmörkuðum svæðum. Þannig verði yfir 80% fjár á mestu áhættusvæðunum arfblendið eða arfhreint innan fimm ára og þar af leiðandi ólíklegt til að veikjast af riðu.

„Matvælastofnun hefur haft samráð við viðeigandi aðila, m.a. fagráð í sauðfjárrækt og deild sauðfjárbænda hjá Bændasamtökum Íslands til að hraða innleiðingu verndandi arfgerða. Sérstakur sérfræðingahópur um riðuveiki var einnig skipaður Matvælastofnun til ráðgjafar, en gott samstarf bænda og stjórnvalda er forsenda árangurs í þessum málaflokki. Yfirdýralæknir leiðir þessa vinnu af hálfu stjórnvalda, sem sá aðili sem ber ábyrgð á dýraheilbrigði,“ að því er segir á vef Stjórnarráðsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir